Erlent

Ó­ljóst hve mikil al­vara er á bak­við hótanir um við­skipta­þvinganir

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vladimir Putin sést hér á ríkisstjórnarfundi. Vesturlönd hafa hótað viðskiptaþvingunum á Rússa ráðist þeir inn í Úkraínu.
Vladimir Putin sést hér á ríkisstjórnarfundi. Vesturlönd hafa hótað viðskiptaþvingunum á Rússa ráðist þeir inn í Úkraínu. Vísir/AP

Bretar íhuga að tvöfalda herafla sinn í Austur-Evrópu vegna átakanna við landamæri Úkraínu. Þeir segja að öllum tilraunum Rússa til innrásar verði mætt með hörðum viðskiptaþvingunum. 

Boris Johnson forsætisráðherra Breta segir að þessi mögulega fjölgun hermanna myndi senda skýr skilaboð til ráðamanna Rússlands í Kremlin og um leið stuðning til bandamanna Breta innan NATO. Úkraína er ekki meðlimur í NATO og hefur það verið ein helsta krafa Vladimir Putin, forseta Rússlands, að þeim verði ekki boðið þangað inn. 

Um 900 breskir hermenn eru nú þegar í Eistlandi og nokkur hundruð í viðbót í Úkraínu og Póllandi. Þá kemur til greina að senda bæði vopn og fjármuni til Úkraínu ef af innrás Rússa verður.

Viðskiptaþvinganir Vesturlanda í kortunum

Ráðamenn í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi hafa allir talað um mögulegar viðskiptaþvinganir til að draga vígtennurnar úr Rússum. Efasemdir hafa þó verið uppi um hversu langt verði gengið í þeim efnum.

Málefni Rússlands og Úkraínu voru til umræðu í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem þeir Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum, og Jón Ólafsson, prófessor, ræddu mögulegar viðskiptaþvinganir.

Hér fyrir neðan má hlusta á alla umræðu Alberts og Jóns á Sprengisandi í morgun.

Jón ræddi þar Nord Stream gasleiðsluna sem á að taka í notkun fljótlega, en hún flytur gas frá Rússlandi til Þýskalands, og mun lækka verð á gasi í Evrópu verulega. Jón sagði gasverð hafa hækkað undanfarið sem þýðir að verið væri að senda gas í fljótandi formi til Evrópu og það svo selt á hærra verði en áður hefur verið hægt.

Eina leiðin fyrir Vladimir  Putin að koma þessu gasi á markað og ná enn meiri markaðshlutdeild í Evrópu sé að fá Nord Stream leiðsluna í gang. Ef lokað verði fyrir hana þýði það hærra gasverð í Evrópu.

„Þannig að það er vandséð hvort það er verra fyrir Evrópu eða Rússland að loka fyrir þetta. Það er ólíklegt að ímynda sér, að minnsta kosti á meðan hernaðaraðgerðir eru ekki farnar að ógna heimsfriðinum, að fólk sé til í að raunverulega stoppa þetta þó Bandaríkjamenn segjast munu reyna það og hafa alltaf verið á móti þessari leiðslu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×