Skoðun

Fram­halds­skóla­nemar kalla á hjálp

Kristín Thoroddsen skrifar

Framhaldsskólanemar hafa í gegnum heimsfaraldurinn sýnt ótrúlega þolinmæði og þurft að fórna flestu því sem við fengum að upplifa og njóta á sínum tíma. Framhaldsskólaárin eru þau ár sem móta einstaklinginn hvað mest og stuðla að þroska nemandans til að takast á við framtíðina. Undanfarið og í raun allt frá því heimsfaraldurinn tók yfir líf okkar höfum við rætt um og ritað hversu mikilvægt er að huga að andlegri heilsu þessa aldurshóps. Framhaldsskólanemar hafa kallað á hjálp, þeir hafa bent á mikilvægi þess að félagslíf sé í boði, böll, klúbbastarf og matsalir verði opnir. Ég skil því mæta vel vonbrigði þeirra þegar í ljós kom að engin breyting var á skólahaldi þessa hóps. Það var sannarlega ástæða til að standa vörð um heilsu þeirra sem og okkar allra þegar veiran var sem verst og fólk veiktist illa. Við erum með allt aðra stöðu í dag, stöðu sem hefði líklega ekki valdið neyðarástandi ein og sér. Veiran var banvæn en áframhaldandi harðar aðgerðir eru að mínu mati alvarlegri en sjúkdómurinn sjálfur fyrir unga fólkið okkar.

Áskorun til ríkisstjórnarinnar!

Það unga fólk sem nú situr bak við grímur sínar í skólastofum framhaldsskóla landsins er næsta kynslóð okkar. Það hefði því að mínu mati átt að vera forgangsatriði að aflétta takmörkunum sem þetta unga fólk býr við þegar farið var í fyrsta áfanga afléttingar í síðustu viku. Aðrar afléttingar háværra hópa hafa átt sér stað fyrir minna tilefni. Hlutverk framhaldsskóla er ekki aðeins það að tryggja góða menntun til framtíðar heldur einnig að styðja við félagslega getu og þroska einstaklingsins innan þess samfélags sem framhaldsskóli er. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er fjallað um skyldur en þar segir að ekki sé síður mikilvægt að skólinn styðji við félagslegt heilbrigði nemenda með því að hvetja til virkrar þátttöku í félagslífi. Ég skora því á ríkisstjórnina að hlusta á raddir unga fólksins, standa með þeim og gera þær breytingar sem þarf á sóttvarnarlögum svo þau sitji ekki uppi með eftirköst heimsfaraldursins lengra inn í framtíðina en nauðsyn krefur. Leyfum þeim að fella grímuna og njóta lífsins, án hafta.

Það er ekki eftir neinu að bíða!

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×