Handbolti

Kyssti leikmanninn sinn áður en hann fór inn á og tryggði titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niclas Ekberg fagnar sigurmarki sínu í úrslitaleik EM í gær.
Niclas Ekberg fagnar sigurmarki sínu í úrslitaleik EM í gær. EPA-EFE/Tibor Illyes

Niclas Ekberg náði að skora fimm mörk í úrslitaleik EM þrátt fyrir að vera bara inn á í 80 sekúndur í leiknum. Mikilvægasta markið hans kom þó eftir að leiktíminn var runninn út.

Ekberg skoraði sigurmarkið úr vítakasti og tryggði Svíum þar sem fyrsta Evrópumeistaratitilinn í tuttugu ár.

Ekberg er einn reynslumesti leikmaður sænska landsliðsins og var því búinn að bíða eftir þessum titli lengur en flestir. Hann datt út úr liðinu á mótinu vegna kórónuveirusmits en fékk leyfi til að koma aftur inn í úrslitaleikinn.

Ekberg er einn besti hornamaður heims og hefur verið það lengi. Hann er líka vanur að nýta vítin sín vel.

Ekberg mætti á punktinn fullur sjálfstraust og skoraði af öryggi úr vítinu. Eftir leikinn sagði hann frá því sem hann sagði við þjálfara sinn Glenn Solberg.

Hinn norski Glenn Solberg varð aðeins annar þjálfarinn í sögunni til að gera aðra þjóð að Evrópumeisturum en sá fyrsti var Dagur Sigurðsson sem vann titilinn með þýska landsliðinu.

„Ég sagði við hann að nú ætla ég að tryggja okkur Evrópumeistaratitilinn,“ sagði Niclas Ekberg og bætti við:

„Hann svaraði með því að kyssa mig á kinnina og svo fór ég inn á og tryggði okkur titilinn,“ sagði Ekberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×