Handbolti

„Finnst alveg galið ef Guðmundur er ekki kostur númer eitt, tvö og þrjú hjá HSÍ“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson á fimm mánuði eftir af samningi sínum við HSÍ.
Guðmundur Guðmundsson á fimm mánuði eftir af samningi sínum við HSÍ. getty/Sanjin Strukic

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson vilja að HSÍ geri allt til að semja við Guðmund Guðmundsson um að stýra íslenska karlalandsliðinu áfram.

Samningur Guðmundar við HSÍ rennur út eftir fimm mánuði og í viðtali við Vísi eftir síðasta leik Íslands á EM sagði hann óvíst hvað framtíðinn bæri í skauti sér. Guðmundur tekur við danska liðinu Fredericia í sumar en hefur áður stýrt félags- og landsliði á sama tíma.

Ásgeir Örn og Róbert ræddu um framtíð Guðmundar við Stefán Árna Pálsson í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar.

„Mér finnst það borðliggjandi miðað við hvernig þetta mót spilaðist og á hvaða stað liðið er komið að þeir ættu að reyna að halda honum. Hvort hann vill það eða hvernig aðstæðurnar eru hefur maður ekki hugmynd um en mér finnst alveg galið ef það er ekki kostur númer eitt, tvö og þrjú hjá HSÍ,“ sagði Ásgeir Örn.

Róbert tók í sama streng. „Ég er sammála því. Það væri mjög sérstakt að skipta núna en hann vildi ekkert gefa upp um það sjálfur hvort hann vildi halda áfram. HSÍ og Gummi eiga að hittast og sjá hvað vilja báðir aðilar vilja gera. Og auðvitað ætti HSÍ að vilja halda honum,“ sagði Róbert. „Eina sem gæti stoppað þetta er ef hann vill ekki vera áfram. HSÍ ætti auðvitað alltaf að reyna að halda honum.“

Guðmundur tók við íslenska landsliðinu í þriðja sinn í upphafi árs 2018. Hann hefur stýrt Íslandi á fjórum stórmótum síðan þá. Íslendingar enduðu í 11. Sæti á HM 2019 og EM 2020, 20. Sæti á HM 2021 og 6. Sæti á EM 2022 sem lauk um helgina.

Hlusta má á EM-hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×