Erlent

Tru­deau ó­sáttur: Þúsundir mót­mæltu sótt­varna­að­gerðum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Fjölmargir hafa mælt bólusetningarskyldu vörubílstjóra í Ottowa í Kanada síðustu daga.
Fjölmargir hafa mælt bólusetningarskyldu vörubílstjóra í Ottowa í Kanada síðustu daga. EPA-EFE/ANDRE PICHETTE

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada gagnrýnir harðlega þá sem mótmæla nú sóttvarnaaðgerðum þar í landi. Fjöldi mótmælenda safnaðist saman fyrir utan þinghúsið í Ottowa um helgina og aðrir hyggjast hvergi nærri hættir.

Mótmælendurnir, sem ganga undir nafninu “Freedom Convoy” eða „Frelsislestin,“ gagnrýna bólusetningarskyldu harðlega. Kanadamenn hafa gripið til harðra takmarkana í faraldrinum en stjórnvöld í kanadíska fylkinu Québec hafa meðal annars ákveðið að skattleggja óbólusetta.

Mótmælin hafa farið friðsamlega fram að mestu leyti en lögregla hefur nokkur mál til rannsóknar þar sem mótmælendur eiga að hafa borið merki nasista. Þá hafa  einnig verið myndbönd af konu í dreifingu á samfélagsmiðlum, sem dansaði á minnisvarða fallinna hermanna.

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada segir mótmælin „móðgun við söguna og sannleikann,“ og hefur ekki viljað fara á fund mótmælenda.

„Tjáningarfrelsið, réttur til mótmæla og samkoma er hornsteinn lýðræðisins. Merki nasista, rasismi og vanhelgun minnisvarða er það ekki. Ég legg áherslu á að standa með þjóðinni og koma okkur í gegnum þennan faraldur,“ segir Trudeau.

Candice Bergen, leiðtogi Íhaldsflokksins í Kanada, segir að mótmælendurnir eigi rétt á því að hlustað verði á þá: „Mótmælendurnir hafa rétt á virðingu. Milljónir Kanadabúa eru orðnir langþreyttir á útgöngubanni og brostnum loforðum,“ segir Bergen í stjórnarandstöðu.

Mótmælin má rekja til nýrra reglna um skyldu óbólusettra vörubílstjóra til að einangra sig við komu til Kanada frá Bandaríkjunum.  Um 90 prósent vörubílstjóra í Kanada eru bólusettir en reglurnar nýju eiga að hafa verið kornið sem fyllti mælinn, að því er fram kemur hjá Breska ríkisútvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×