Handbolti

Sonur mark­varðar sænsku Evrópu­meistaranna stríddi pabba sínum í við­tali

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Palicka gat ekki annað en skellihlegið að svörum sonar síns.
Andreas Palicka gat ekki annað en skellihlegið að svörum sonar síns. Skjámynd/Twitter

Andreas Palicka var frábær í marki Svía í lokaleikjum Evrópumótsins í handbolta og átti mikinn þátt í Evrópumeistaratitlinum.

Palicka varði ellefu skot í úrslitaleiknum og tólf skot í undanúrslitaleiknum á móti Frökkum. Báðir leikir unnust með einu marki þar sem sænski markvörðurinn var að taka ómetanlega bolta á úrslitastundu.

Svíar tóku vel á móti sænsku Evrópumeisturunum á flugvellinum í Stokkhólmi í gær og meðal þeirra sem tóku á móti hetjunum var Aston, níu ára sonur Andreas Palicka.

Andreas Palicka gat ekki annað en hlegið að svörum sonarins sem voru líka mjög fyndin.

Spyrillinn spurði Aston hversu góður pabbi hans væri.

„Hann er bestur í heimi... eða næstbestur. Landin er aðeins betri,“ svaraði Aston Palicka af hreinskilni en hann bar þá að tala um Niklas Landin Jacobsen markvörð danska landsliðsins.

Því næst var Aston spurður af því hvernig væri að sjá pabba sinn koma heim með gullverðlaun.

„Skrítið. Vanalega kemur hann heim með silfur eða brons,“ svaraði Aston.

Andreas Palicka er 35 ára gamall og hefur spilað með sænska landsliðinu frá 2007. Hann hafði aldrei unnið stórmót með sænska landsliðinu en varð í öðru sæti á HM í Egyptalandi í fyrra og í öðru sæti á EM í Króatíu fyrir fjórum árum.

Palicka hefur aftur á móti unnið þýsku deildina sjö sinnum, sex sinnum með Kiel og einu sinni með Rhein-Neckar Löwen.

Hann gekk til liðs við Redbergslids um áramótin og klárar því tímabilið í Svíþjóð. Hann skiptir síðan yfir í franska stórliðið PSG handboll á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×