Þetta má lesa út úr uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa tryggingarfélagsins í lok janúar en til samanburðar nam eignarhlutar sömu hlutabréfasjóða Stefnis – Innlend hlutabréf hs. og ÍS 5 – undir fjórum prósentum mánuði áður. Sjóðirnir keyptu að lágmarki 35 milljónir hluta að nafnvirði í VÍS í liðnum mánuði – þeir fara nú samtals með rúmlega 109 milljónir hluta í eigin nafni – sem má ætla að þeir hafi greitt um 700 milljónir króna fyrir.
Hlutabréfaverð VÍS hefur lækkað um nærri 7 prósent frá áramótum og stendur nú í 19 krónum á hlut en markaðsvirði félagsins er um 35 milljarðar króna.
Á sama tíma og Stefnir hefur verið að bæta við sig í VÍS hefur sjóðastýringarfyrirtækið Akta losað um stóran hluta bréfa sinna í tryggingafélaginu í byrjun þessa árs. Sjóðir Akta byggðu upp stöðu í VÍS á fjórða ársfjórðungi síðasta árs – þeir flögguðu yfir 5 prósenta markið um miðjan október – en í síðasta mánuði minnkaði sá hlutur verulega þegar Akta Stokkur seldi að lágmarki nærri tveggja prósenta hlut í félaginu.
Sjóðurinn fór með 2,8 prósenta hlut í VÍS í árslok 2021, eða sem jafngildir 54 milljónum hluta að nafnvirði, en er nú ekki lengur á lista yfir helstu hluthafa félagsins sem eiga meira en eitt prósent. Um miðjan janúar á þessu ári kom fram í flöggun til Kauphallarinnar að sjóðir Akta – bæði í eigin nafni og eins í gegnum framvirka samninga – færu samanlagt með tæplega 4,8 prósenta hlut í VÍS.
Lífeyrissjóðir bæta við sig
Þá hefur lífeyrissjóðurinn Gildi, næst stærsti hluthafi tryggingafélagsins, bætt við sig meira en 0,5 prósenta hlut og fer nú með tæplega 8,3 prósenta eignarhlut. LSR jók einnig lítillega við hlut sinn í VÍS í liðnum mánuði en sjóðurinn er stærsti hluthafi félagsins með um níu prósenta hlut.
Í tilkynningu VÍS til Kauphallarinnar eftir lokun markaða í gær kom fram að félagið gerði ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2022 yrði á bilinu 95 til 97 prósent. Langtímamarkmið VÍS er hins vegar að hlutfallið verði ekki hærra en 95 prósent.
Á fyrstu níu mánuðum síðast árs var hagnaður á rekstri VÍS samtals 6,7 milljarðar króna. Hlutabréfaverð VÍS hefur hækkað um 36 prósent á undanförnum tólf mánuðum en til samanburðar hefur gengi bréfa Sjóvá hækkað um liðlega 23 prósent.