Handbolti

Sigvaldi með þriðja besta mark EM

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson var valinn maður leiksins í fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM.
Sigvaldi Björn Guðjónsson var valinn maður leiksins í fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM. Getty/Sanjin Strukic

EHF hefur tekið saman tíu bestu mörk nýafstaðins Evrópumóts í handbolta og eitt af þeim mörkum er úr smiðju íslenska landsliðsins.

Að mati EHF átti Sigvaldi Björn Guðjónsson þriðja besta mark EM en það skoraði hann með gullfallegum snúningi eftir að hafa flogið inn úr hægra horninu, í sigrinum gegn Portúgal í fyrsta leik Íslands á mótinu.

Tíu bestu mörkin má sjá hér að neðan en tvö þeirra voru skoruð á móti Íslandi sem endaði í 6. sæti mótsins.

Þjóðverjinn Christoph Steinert skoraði næstbesta mark mótsins, aftur fyrir sig í leik gegn Póllandi. 

Besta markið var kannski ekki það flottasta en svo sannarlega það mikilvægasta, frá Niclas Ekberg á vítalínunni, þegar leiktíminn var liðinn í úrslitaleik Svíþjóðar og Spánar. Afar fast skot Ekbergs tryggði Svíum langþráðan meistaratitil.


Tengdar fréttir

Viktor Gísli í úr­vals­liði EM en ekki pláss fyrir Ómar Inga

Úrvalslið Evrópumótsins í handbolta er klárt. Markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson er í sjö manna draumaliði mótsins en ekki er pláss fyrir hinn magnaða Ómar Inga Magnússon sem gæti enn endað sem markahæsti leikmaður mótsins.

„Þetta er smábrot af því sem mun koma“

Markvörðurinn ungi Viktor Gísli Hallgrímsson segir að framtíðin sé mjög björt hjá íslenska landsliðinu í handbolta. Það að liðið hafi náð 6. sæti á nýafstöðnu Evrópumóti sé aðeins forsmekkurinn að því sem koma skuli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×