Frá þessu greinir Reuters-fréttastofan. Að leit lokinni hafi lögregla gefið grænt ljós á að nemendur skólans gætu yfirgefið skólasvæðið, en það máttu þeir ekki meðan leitin stóð yfir. Lögregla mun þó halda rannsókn málsins áfram.
Reuters hefur eftir lögreglunni að ekki sé ljóst hvort einstaklingurinn sem leitað var að hefði farið inn í skólann eða aðeins gengið fram hjá. Um 1.300 nemendur ganga í skólann, sem kenndur er við þýska efnafræðinginn Otto Hahn.
Lögregla beindi þeim tilmælum til áhyggjufullra foreldra að bíða á bílastæði skammt frá skólanum á meðan leit að mögulegum byssumanni stæði yfir.
Skotárásir á skóla í Þýskalandi eru ekki tíðar, en í síðasta mánuði skaut 18 ára nemandi Heidelberg-háskóla einn til bana og særði þrjá aðra. Mannskæðasta skólaskotárásin í landinu varð árið 2002, þegar byssumaður varð sextán að bana áður en hann tók eigið líf, í borginni Erfurt í austurhluta Þýskalands.