Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir forsetanum, en um er að ræða fyrsta skiptið sem hann tjáir sig almennilega um ástandið sem uppi er á landamærum Rússlands og Úkraínu. Hann segir markmið Bandaríkjanna vera að lokka Rússland til átaka við Úkraínu, með það að augnamiði að leggja viðskiptaþvinganir á Rússland.
Þá sagði hann Bandaríkin hundsa með öllu áhyggjur Rússa af umsvifum evrópskra aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins í álfunni.
Líkt og fjallað hefur verið um hefur viðvera rússneskra hermanna við landamæri Úkraínu valdið miklum titringi milli ríkjanna. Rússar hafa neitað ásökunum vesturlanda um að innrás í Úkraínu sé yfirvofandi. Tæp átta ár eru síðan Rússar innlimuðu Krímskaga frá Úkraínu og studdu blóðuga uppreisn í austurhluta Úkraínu.
Rússnesk stjórnvöld hafa á móti sakað ríkisstjórn Úkraínu um að hafa látið hjá líða að fylgja eftir samkomulagi um að koma á friði í austurhluta landsins. Minnst 14.000 manns hafa fallið þar en uppreisnarmenn, studdir af Rússum, stjórna stórum svæðum þar.
Segir Bandaríkin nota Úkraínu
Pútin fundaði í dag með Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, að loknum fundinum sagðist hann ekki sannfærður um að heilindi lægju að baki því sem Bandaríkin hafa haldið fram um mögulega árás Rússlands inn í Úkraínu.
„Mér virðist sem Bandaríkjunum sé ekki svo umhugað um öryggi Úkraínu, heldur sé aðalmarkmið þeirra að koma í veg fyrir framgang Rússlands. Að þessu leyti er Úkraína aðeins verkfæri til þess að ná þessu markmiði.“
Pútín sagði þá að Bandaríkjamenn hefðu skellt skollaeyrum við áhyggjum Rússa af öryggi í austurhluta Evrópu. Rússar hafa meðal annars farið fram á lagalega bindandi tryggingu fyrir því að Atlantshafsbandalagið teygi sig ekki lengra í austur en þegar er. Austustu Evrópuríki bandalagsins eru Eistland, Lettland og Litháen, en tvö fyrrnefndu eiga landamæri að Rússlandi til austurs.
Hvorki Úkraína né Hvíta-Rússland, nágrannaríki Rússlands, eru aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Pútin virðist hins vegar hafa áhyggjur af því að Úkraína fái það í gegn að ganga í bandalagið, sem honum hugnast alls ekki, og gefur í skyn að Úkraína gæti þannig dregið allt bandalagið með sér í stríð við Rússland.
„Segjum að Úkraína væri í bandalaginu og myndi hefja hernaðaraðgerðir [til þess að endurheimta Krímskaga]. Hvernig eigum við að berjast við Atlantshafsbandalagið? Hefur einhver hugsað um það? Svo virðist ekki vera.“
Vill hermennina burt frá landamærunum og segist til í að tala
Fyrr í dag átti Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, símafund með Sergei Lavrov, kollega sínum í Moskvu, þar sem hann sagði tíma til kominn að Rússar kölluðu til baka hermennina sem nú væru við landamæri Úkraínu. Það er, ef það væri satt að Rússar hygðu ekki á innrás.
Þá sagði hann Bandaríkin tilbúin að halda áfram viðræðum við Rússa um mögulegar áhyggjur þeirra síðarnefndu af öryggi í austurhluta Evrópu.