Enski boltinn

Mega skipta Greenwood-treyjum út

Sindri Sverrisson skrifar
Mason Greenwood naut talsverðra vinsælda hjá stuðningsmönnum Manchester United þar til á sunnudaginn.
Mason Greenwood naut talsverðra vinsælda hjá stuðningsmönnum Manchester United þar til á sunnudaginn. Getty/Naomi Baker

Þeir stuðningsmenn Manchester United sem keyptu treyju merkta Mason Greenwood mega nú skipta henni út fyrir aðra treyju.

Þetta kemur fram í frétt Daily Mail þar sem segir að United hafi fjarlægt allar vörur tengdar Greenwood og að ósáttir stuðningsmenn geti skipt Greenwood-treyjum út í verslun félagsins á Old Trafford.

Greenwood varði þremur nóttum í fangaklefa eftir að hafa verið hnepptur í gæsluvarðhald á sunnudaginn. Hann er sakaður um að hafa gengið í skrokk á kærustu sinni og hótað henni lífláti. 

Hún birti sjálf myndir á samfélagsmiðlum af áverkum sem hún sagði vera eftir Greenwood, og hljóðupptöku þar sem hann heyrist neyða hana til samræðis.

Hinn tvítugi Greenwood er nú laus gegn tryggingu og dvelur heima hjá sér, samkvæmt frétt Daily Mail. Blaðið segir hann hafa ráðið öryggisverði til að gæta hússins og sett upp öryggismyndavélakerfi með átta myndavélum. 

United hefur gefið út að á meðan á rannsókn lögreglu standi þá muni Greenwood hvorki æfa né spila með United. Þá hefur hann verið fjarlægður úr FIFA 22 tölvuleiknum, íþróttavöruframleiðandinn Nike hætt samstarfi við hann og súkkulaðigerðin Cadbury hætt að nota ímynd leikmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×