Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá Venus, skip Brims, leggjast að bryggju í Reykjavík eftir að hafa landað 2.700 tonnum á Akranesi. Skipverjarnir bjuggust við að halda beint út á miðin þegar þeim var tilkynnt af útgerðinni að hlé skyldi gert á veiðum.

Venus er næstaflahæsta skipið á vertíðinni til þessa, með 18.128 tonn. Aðeins Börkur NK hefur veitt meira, eða 18.799 tonn, samkvæmt aflalista Fiskistofu í dag. Í þriðja sæti er Beitir NK, með 17.659 tonn.
Á Skarfabakka í Sundahöfn spurðum við Theódór Þórðarson skipstjóra hvernig þetta legðist í þá:
„Við verðum bara að taka því. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem kemur eitthvert hökt í þessar loðnuveiðar.“
-Þið eruð ekki hundfúlir?
„Jú, jú. Svona í aðra röndina. Við verðum bara að taka þessu,“ svarar Theódór.
Blússandi gangur var kominn í veiðina þótt loðnan hafi verið dreifð í fyrstu.
„Það eru búnar að koma nokkrar.. fjórar fimm gusur. Þannig að það er búin að vera mjög góð veiði á köflum. Enda búið að veiða töluvert.“
-Það hafa borist fréttir af mokveiði síðustu daga og viku.
„Já, já. Það hefur verið mokveiði á köflum. Menn að fá góðan afla á skömmum tíma.“

Búið er að binda Venus við bryggju og líklegt að það sama gerist hjá meirihluta loðnuskipanna á næstu dögum. Þó er búist við að þær útgerðir sem hafa bestu kvótastöðuna haldi áfram veiðum næstu daga.
„Ætli flestir stoppi nú ekki. Það er eitthvað misjöfn kvótastaðan hjá útgerðunum. Allavega það var ákveðið að stoppa okkur. Geyma restina. Gera sem mest úr þessu,“ segir Theódór.
Hann segist reikna með vikustoppi en síðan fer að styttast í hrygningu og loðnan að komast í sitt verðmætasta form. Þeir á Venusi bíða því spenntir eftir framhaldinu.
„Já, já. Að sjálfsögðu. Það er skemmtilegasti tíminn eftir, nótaveiðin,“ segir skipstjórinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um viðvörun Hafrannsóknastofnunar í frétt Stöðvar 2 í gær: