Erlent

Elísa­bet út­nefnir Camillu verðandi drottningu

Eiður Þór Árnason skrifar
Camilla, hertogaynja af Cornwall.
Camilla, hertogaynja af Cornwall. Getty/Stuart C. Wilson

Elísabet II Bretlandsdrottning tilkynnti í kvöld að hún vilji að Camilla, hertogaynja af Cornwall, verði ávörpuð sem drottning þegar Karl Bretaprins verður konungur. 

Í yfirlýsingu sem Elísabet sendi út í tilefni af sjötíu ára valdaafmæli sínu á morgun segir drottningin að það væri hennar einlæga ósk hennar að Camilla tæki við titlinum. 

Áður hafði verið til umræðu að Camilla yrði þekkt sem prinsessa (e. Princess Consort) en í stað þess fær hún viðurnefnið Queen Consort. Queen Consort vísar til þess að Camilla verði maki ríkjandi konungs en að sögn Breska ríkisútvarpsins þýðir þetta að hún verði titluð Camilla drottning þegar sonur Elísabetar tekur við krúnunni.

Fillipus ekki fengið að kalla sig konung

Fram að þessu hafa eiginmenn breskra þjóðhöfðingja verið titlaðir Prince Consort en ekki konungar, til að mynda í tilvikum Fillipus prins og Alberts prins. 

Miðað við fordæmi hefði Camilla sjálfkrafa orðið drottning þegar Karl yrði konungur, en óljóst var hvort svo færi vegna mögulegrar óánægju almennings. Karl og Camilla voru bæði fráskilin þegar þau giftu sig árið 2005 í borgaralegri hjónavígslu. Með inngripi Bretlandsdrottningar er nú ólíklegt að nokkrar hindranir séu í vegi fyrir því að Camilla verði fullgild drottning við hlið eiginmanns síns.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×