Innlent

„Lognið“ á undan storminum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svona lítur viðvaranakort Veðurstofunnar út á morgun klukkan 6:30.
Svona lítur viðvaranakort Veðurstofunnar út á morgun klukkan 6:30. Vísir/Vilhelm

Í dag má búast við nokkuð stífri norðanátt með éljum fram eftir degi, þó þurrt verði og bjart syðra. Frost verður á bilinu núll til átta stig.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands, þar sem fjallað er um lægðina sem nálgast landið og ætti að láta finna fyrir sér í nótt og á morgun. Um hana segir Veðurstofan:

„Í kvöld nálgast mjög djúp lægð suðvestan úr hafi. Seint í nótt og fyrramálið er búist við suðaustan stormi, roki eða ofsaveðri með snjókomu, en slyddu við suðurströndina. Snýst síðan í hvassa suðvestanátt með éljagangi, en styttir upp á norðaustanverðu landinu síðdegis á morgun. Hiti um og undir frostmarki.

Lægðin grynnist á þriðjudag, en heldur áfram að dæla inn éljum á sunnan- og vestanvert landið og því ekki gott ferðaveður á þeim slóðum.“

Viðvaranir um allt land

Á morgun verður í gildi appelsínugul viðvörun um allt land, en þó á mismunandi tímum. Hún verður í gildi fyrir vesturhluta landsins og hálendið fyrr um morguninn, en um tíu verður appelsínugul viðvörun í gildi fyrir allt landið nema vesturhluta þess. Fljótlega eftir hádegi á morgun tekur hins vegar við gul veðurviðvörun vestarlega á landinu, sem gildir til miðnættis á morgun.

Þó er vert að taka fram að þetta er ekki endanlegt, enda getur spáin alltaf breyst, eins og Íslendingar þekkja. Þannig sagði veðurfræðingur sem fréttastofa ræddi við í gær að ekki væri loku fyrir það skotið að rauð veðurviðvörun yrði gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Suðaustan 18-25 m/s um morguninn, en 23-30 m/s (rok eða ofsaveður) á S- og V-landi. Víða snjókoma, en slydda nærri sjávarmáli S-lands.

Snýst í hvassa suðvestanátt með éljum fyrir hádegi á S- og V-verðu landinu og dregur síðan úr vindi og styttir upp á N- og A-landi. Hiti um og undir frostmarki.

Á þriðjudag:

Suðlæg eða breytileg átt, víða 10-15 m/s og él, en hægari og þurrt að kalla NA-til. Frost 0 til 8 stig, kaldast NA-lands.

Á miðvikudag:

Norðan 8-15 og él í flestum landshlutum, en léttir til á S- og V-landi síðdegis. Harðnandi frost.

Á fimmtudag:

Vestlæg átt og bjartviðri, en dálítil él V-lands. Áfram kalt í veðri.

Á föstudag:

Suðlæg átt og stöku él, en léttskýjað á NA- og A-landi. Frost 0 til 12 stig, kaldast NA-til.

Á laugardag:

Sunnanátt og slydda eða rigning, en úrkomulítið NA-lands. Hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×