Innlent

Sig­valdi vill 2.-3. sæti hjá Sjálf­stæðis­mönnum í Kópa­vogi

Árni Sæberg skrifar
Sigvaldi Egill Lárusson
Sigvaldi Egill Lárusson Aðsend

Sigvaldi Egill Lárusson, fjármála- og rekstrarstjóri Hafrannsóknastofnunar, hefur tilkynnt um framboð sitt í 2. - 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sem fram fer 12. mars næstkomandi.

Í fréttatilkynningu Sigvalda segir að hann sé 36 ára fjölskyldufaðir af Kársnesinu. Hann sé í sambúð með Hrefnu Sif Jónsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Tix og eigi eina stjúpdóttur og einn son. Því þekki hann umgjörð barnafólks í Kópavogi vel og hafi áhuga á að gera gott betra í þeim efnum.

„Ég tel að reynsla mín, menntun og það viðhorf að vera stöðugt að gera betur hafi fullt erindi í bæjarstjórn Kópavogs, með það að markmiði að þjónusta íbúa bæjarins sem best með þeirra hagsmuni ávallt að leiðarljósi.“ segir Sigvaldi.

Hann segir áherslumál sín vera fyrst og fremst málefni fjölskyldunnar, leikskólamálin, velferðarmál og hagkvæmni og skilvirkni í rekstri með sem lægstar álögur á íbúa og fyrirtæki.

Sigvaldi hefur starfsreynslu bæði frá einkageiranum og þeim opinbera. Hann hefur starfað samanlagt í 6 ár sem fjármálastjóri hjá hinu opinbera. Þar af þrjú ár sem fjármálastjóri hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og núverandi starf hans er fjármála- og rekstrarstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Sem áður segir fer prófkjör Sjálfstæðismanna í Kópavogi fram þann 12. mars næstkomandi. Ljóst er að það verður spennandi enda hefur bæjarstjórinn og oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi, Ármann Kr. Ólafsson, tilkynnt að hann fari ekki fram á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×