Eftir sem áður verður appelsínugul viðvörun í gildi víðast hvar á landinu aðfararnótt mánudags.
Ljóst er að rauð viðvörun mun hafa töluverð áhrif á höfuðborgarbúa í fyrramálið en veðurfræðingur sagði í samtali við Vísi í gær að fólk kæmist hvorki lönd né strönd á morgun fyrr en að snjómokstri loknum.
„Miklar líkur eru á veðri sem hefur mjög mikil samfélagsleg áhrif, eða slíkt veður er yfirstandandi. Einstaklega áköfum og hættulegum veðurskilyrðum er spáð. Búast má við miklum skemmdum, líkur á slysum eru miklar og veðrið ógnar lífi. Viðbúið að samgöngur lokist og aðgengi að innviðum/þjónustu skerðist,“ segir á vef Veðurstofunnar um rauða viðvörun.
Um er að ræða einungis annað skipti sem rauð veðurviðvörun er gefin út á höfuðborgarsvæðinu og þriðja skipti á landinu. Viðvörunarkerfi Veðurstofunnar var tekið í gagnið árið 2017.