Fótbolti

Rodman mætir íslensku stelpunum eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trinity Rodman í lyftingarsalnum í æfingabúðum bandaríska landsliðsins í síðasta mánuði.
Trinity Rodman í lyftingarsalnum í æfingabúðum bandaríska landsliðsins í síðasta mánuði. Getty/Brad Smith

Trinity Rodman átti bara að fá að æfa með bandaríska landsliðinu í tengslum við SheBelieves Cup en nú er ljóst að hún verður í búningi þegar liðið mætir Íslandi.

Rodman var í gær kölluð inn í hópinn fyrir Abby Dahlkemper sem missir af mótinu vegna bakmeiðsla. Dahlkemper er varnarmaður en Rodman er framherji.

Rodman verður því í 23 manna hópnum sem mætir Tékklandi, Nýja-Sjálandi og Íslandi á mótinu sem fer fram í Kaliforníu og Texas frá 17. til 23. febrúar.

Hún er nítján ára gömul og sló í gegn á sínu fyrsta tímabili í bandarísku kvennadeildinni. Hún var kosinn besti ungi leikmaður deildarinnar og varð bandarískur meistari með Washington Spirit.

Washington Spirit launaði frábæra frammistöðu Rodman með því að gera við hana nýjan samning þar sem hún verður fyrsta bandaríska fótboltakonan til að fá milljón dollara samning.

Hún vakti fyrst athygli fyrir að vera dóttir NBA-goðsagnarinnar Dennis Rodman en var heldur betur fljót að skapa sér nafn fyrir frammistöðu sína inn á vellinum.

Landsliðsþjálfarinn Vlatko Andonovski er að yngja upp í bandaríska liðinu en hann valdi sem dæmi ekki reynsluboltana Alex Morgan og Megan Rapinoe í hópinn sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×