Innlent

Hættu­stigi og ó­vissu­stigi af­lýst á Vest­fjörðum

Eiður Þór Árnason skrifar
Snjóflóð féllu úr hlíðinni ofan Flateyrar um síðustu helgi.
Snjóflóð féllu úr hlíðinni ofan Flateyrar um síðustu helgi. Stöð 2/Arnar

Hættustigi og óvissustigi hefur verið aflýst á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu en óvissustig hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum frá því á sunnudag. Hættustigi hefur verið aflýst á Tröllaskaga og er óvissustig nú í gildi.

Aðfaranótt mánudags féllu flóð ofan við Patreksfjörð og fóru kögglar af einu flóðinu yfir svæði þar sem framkvæmdir eru hafnar á nýjum varnargarði. Í morgun kom svo í ljós um 200 metra breitt snjóflóð í innanverðri skálinni í Brellum og annað lítið flóð í utanverðri skálinni.

Veðurstofan greinir frá þessu en rýmingarreitur níu á Ísafirði var rýmdur um tíma, sem og sorpvinnslusvæðið við Funa. Tveir sveitabæir, annar í Skutulsfirði og hinn við Bolungarvík voru einnig rýmdir. Í gærmorgun féll flóð á rýmingarreit níu sem var rýmdur.

Lýst yfir hættustigi í gær

Á sunnanverðum Vestfjörðum var lýst yfir óvissustigi í gær og hættustigi í kjölfarið á Patreksfirði með rýmingu á ytri hluta rýmingareits fjögur. Að sögn ofanflóðavaktar Veðurstofunnar ver nýr varnargarður nú innri hluta rýmingareits fjögur og eru framkvæmdir hafnar á garði sem verja á ytri hlutann. Líkt og fyrr segir féllu flóð ofan við Patreksfjörð aðfaranótt mánudags og fóru kögglar af einu flóðinu yfir á umrætt framkvæmdasvæði.

Veðrið er gengið niður á Vestfjörðum, lítil ofankoma en minniháttar skafrenningur í fjöllum. Gert er ráð fyrir að það dragi áfram úr vindi og ofankomu í dag og spáð er hæglætis veðri næstu daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×