Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti um 0,75 prósentur í morgun sem er mesta einstaka vaxtahækunin frá því vextir fóru að hækka á ný í mars á síðasta ári. Meginvextir nú eru 2,75 prósent. Þeir voru 0,75 prósent þegar þeir voru lægstir frá nóvember 2020 fram í maí á síðasta ári þegar yfirstandandi vaxtahækkunartímabil hófst.
Þar með hafa allar vaxtalækkanir Seðlabankans frá því fyrir covid faraldurinn í febrúar árið 2020 gengið til baka þar sem vextir nú eru þeir sömu og þeir voru þá. Meginorsakir vaxtahækkanna er stighækkandi verðbólga sem að mestu er drifin áfram af miklum hækkunum húsnæðisverðs og innfluttri verðbólgu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir verðbólguna ekki nálgast 2,5 prósenta markmið bankans fyrr en í upphafi árs 2025, eða eftir þrjú ár. Hún muni þó fara hjaðnandi þegar komi fram á mitt þetta ár.
Það er ekki svo langt síðan að þið voruð að spá því að verðbólga færi miklu hraðar niður en það er ekki að gerast?
„Nei við erum að sjá þætti eins og erlendar hækkanir, meiri hækkun á fasteignaverði sem kemur hérna til. Svo skiptir auðvitað miklu máli þegar kemur fram á næsta haust hvernig kjarasamningar koma út. Verðbólga eftir það ræðast algerlega af kjarasamningum,“ segir Ásgeir. Gera þyrfti kjarasamninga sem hefðu það markmið að viðhalda verðstöðugleika.
Heimilin standa vel að mati Seðlabankans. Aðgerðir bankans hafi varið krónuna falli, viðhaldið kaupmætti heimilanna sem enn eigi mikinn sparnað. Verðbólga eigi enn eftir að hækka á þessum ársfjórðungi. Þar með eigi vextir enn eftir að hækka enda væru raunvextir neikvæðir um þessar mundir.
„Það er rétt, það þýðir það. Við þurfum þá að sjá hvað næstu mánuðir bera í skauti sér hvað það varðar. Ef þetta heldur áfram þá þurfum við að bregðast við. Það er alveg rétt,“ segir Ásgeir Jónsson Ásgeir Jónsson.