Innherji

Tillaga Samfylkingarinnar féll í grýttan farveg í Seðlabankanum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Peningastefnunefnd gerði grein fyrir ákvörðun sinni um 75 punkta vaxtahækkun í morgun. 
Peningastefnunefnd gerði grein fyrir ákvörðun sinni um 75 punkta vaxtahækkun í morgun.  Vísir/Vilhelm

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi Seðlabankans í dag að bankinn væri ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum, á borð við þær sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til, á meðan bankinn reynir að hemja eftirspurn.

Þingmenn Samfylkingarinnar ásamt einum fulltrúa frá Pírötum, Viðreisn og Flokki fólksins, hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að fjármálaráðuneytið móti mótvægisaðgerðir til að milda höggið sem heimili verða fyrir vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Telja höfundar tillögunnar að líta þurfi til beins fjárhagsstuðnings vegna snarpra breytinga á húsnæðiskostnaði.

„Líta mætti til sértækra vaxtabóta í tilviki beinnar niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði meðal viðkvæmari hópa. Í tilviki leigjenda þyrfti að skoða húsaleigubætur,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri spurður um afstöðu sína til þessara tillagna. Ásgeir rakti að lækkun vaxta og umfangsmikil inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði til að styðja við gengi krónunnar hefðu leitt til þess að kaupmáttur heimilanna hefði aukist í heimsfaraldrinum. Aftur á móti væri ekki gott að „ganga of hratt um gleðinnar dyr“ og nú væri kominn tími til að hemja eftirspurn.

„Allar eftirspurnarhvetjandi aðgerðir sem koma frá Alþingi eða stjórnvöldum vinna á móti því. Það er sjálfsagt að huga að hlutum sem við getum ekki hugað að, eins og tekjuskiptingu, en almennt eru laun á leiðinni upp og við erum að reyna að hemja eftirspurn. Það er eitthvað sem aðrir mættu vinna að með okkur,“ sagði Ásgeir. Hann bætti síðar við að Seðlabankinn væri „ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum“ eins og staðan er í dag.

Almennt eru laun á leiðinni upp og við erum að reyna að hemja eftirspurn. Það er eitthvað sem aðrir mættu vinna að með okkur

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 75 punkta. Vextir hækka þannig úr 2 prósentum upp í 2,75 prósent.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, benti á að heimilin hefðu sjálf brugðist við vaxtahækkunarferli Seðlabankans með því að festa vexti. Í kjölfarið sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, að á heildina litið bentu allir mælikvarðar til þess að heimilin gætu staðið af sér það þegar vextir færu úr lágu stigi upp í eðlilegra stig.

„Þótt það sé hluti af heimilum sem eiga erfitt með að mæta vaxtahækkunum ... ef við horfum á heildina hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna vaxið í gegnum þessa kreppu umfram það sem hann myndi gera að meðaltali til lengri tíma. Auður heimilanna hefur vaxið mjög mikið, sparnaðarstig er í sögulegum hæðum og hreint eigið fé heimilanna er í sögulegum hæðum,“ sagði Þórarinn.

Verðbólguhorfur hafa versnað töluvert frá síðasta fundi peningastefnunefndar og mældist verðbólga 5,7 prósent í janúar. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent fram eftir þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×