Southampton snéri taflinu við gegn Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Che Adams skoraði sigurmark Southampton í kvöld.
Che Adams skoraði sigurmark Southampton í kvöld. Mike Hewitt/Getty Images

Southampton vann virkilega sterkan 3-2 útisigur er liðið heimsótti Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í kvöld eftir að hafa lent undir í tvígang.

Heimamenn í Tottenham byrjuðu betur og þeir uppskáru mark eftir tæplega tuttugu mínútna leik þegar Pierre-Emile Hoejbjerg gaf boltann fyrir markið og Jan Bednarek varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Nokkrum mínútum áður hafði Cristian Romero skorað fyrir Tottenham, en það mark réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Forysta heimamanna lifði þó ekki lengi því Armando Broja jafnaði metin fyrir gestina fimm mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Romain Perraud. Gestirnir frá Southampton sóttu stíft það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, en staðan var enn 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Liðsmenn Tottenham fundu taktinn á ný í upphafi síðari hálfleiks og færðu sig framar á völlinn. Það skilaði loksins marki þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka þegar Heung-Min Son stýrði fyrirgjöf Lucas Moura í netið.

Mohamed Elyounoussi jafnaði metin á ný fyrir gestina eftir fyrirgjöf frá James Ward-Prowse, og sá síðarnefndi lagði svo annað mark upp fyrir Che Adams tveimur mínútum síðar og staðan því orðin 3-2, gestunum í vil.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin á lokamínútum leiksins og Steven Bergwijn setti boltann í netið fyrir þá á þriðju mínútu uppbótartíma. Eftir stutta skoðu myndbandsdómara kom þó í ljós að Hollendingurinn var rangstæður og markið því réttilega dæmt af.

Tottenham situr nú sjöunda sæti deildarinnar með 36 stig eftir 21 leik, fjórum stigum fyrir neðan West Ham sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu.

Southampton situr hins vegar í tíunda sæti með 28 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira