Körfubolti

Vandræðalegt tap hjá Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fátt gengur upp hjá LeBron James og félögum hans í Los Angeles Lakers þessa dagana.
Fátt gengur upp hjá LeBron James og félögum hans í Los Angeles Lakers þessa dagana. getty/Steph Chambers

Los Angeles Lakers mátti þola neyðarlegt tap fyrir Portland Trail Blazers, 107-105, í NBA-deildinni í nótt.

Portland hefur undanfarna daga skipt sterkum leikmönnum í burtu og þá er besti leikmaður liðsins, Damian Lillard, fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Fyrir leikinn í nótt hafði Portland tapað sex leikjum í röð.

Ekkert af þessu skipti máli gegn Lakers. Anfernee Simons fór fyrir liði Portland og skoraði 29 stig. Jusuf Nurkic var með nítján stig og tólf fráköst.

LeBron James skoraði þrjátíu stig fyrir Lakers og Anthony Davis sautján. Lakers er í 9. sæti Vesturdeildarinnar.

Utah Jazz vann góðan sigur á Golden State Warriors, 111-85, á heimavelli. Þetta var fjórði sigur Utah í röð.

Bojan Bogdanovic skoraði 23 stig í jöfnu liði Utah. Sex leikmenn liðsins skoruðu ellefu stig eða meira í leiknum. Jordan Poole skoraði átján stig fyrir Golden State og Stephen Curry sextán.

Domantas Sabonis spilaði stórvel í fyrsta leik sínum fyrir Sacramento Kings. Hann skoraði 22 stig og tók fjórtán fráköst í 132-119 sigri á Minnesota Timberwolves. Sabonis kom til Sacramento frá Indiana Pacers í skiptum fyrir Tyrese Haliburton.

Harrison Barnes var stigahæstur í liði Kónganna með þrjátíu stig og De'Aaron Fox skoraði 27 stig. D'Angelo Russell skoraði 29 stig fyrir Minnesota.

Úrslitin í nótt

  • Portland 107-105 LA Lakers
  • Utah 111-85 Golden State
  • Sacramento 132-119 Minnesota
  • Cleveland 105-92 San Antonio
  • Charlotte 109-121 Chicago
  • Oklahoma 98-117 Toronto

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×