Fótbolti

„Hraðlestin“ Emelía búin að opna markareikning sinn fyrir Kristianstad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emelía Óskarsdóttir byrjar vel hjá Kristianstad og er strax rómuð fyrir hraða sinn.
Emelía Óskarsdóttir byrjar vel hjá Kristianstad og er strax rómuð fyrir hraða sinn. Instagram/@kristianstadsdff

Hin fimmtán ára gamla Emelía Óskarsdóttir er búin að skora sitt fyrsta mark fyrir aðalliði Kristianstad en hún var á skotskónum í sigri á Eskilstuna United í æfingarleik.

Kristianstad liðið er í æfingabúðum á Marbella á Spáni en það styttist óðum í tímabilið.

Emelía kom til liðs Elísabetar Gunnarsdóttur í vetur og þurfti ekki margar mínútur til að láta að sér kveða í þessum leik sem endaði með 5-1 sigri Kristianstad.

Emelía kom inn á 70. mínútu leiksins og kom að tveimur síðustu mörkum liðsins. Fyrst átti hún stangarskot sem Tilda Sandén fylgdi eftir og skoraði.

Tilda launaði þá aðstoð með því að stinga boltanum inn á Emelíu sem slapp í gegnum og skoraði fimmta og síðasta markið. Hin mörkin skoruðu þær Evelyne Viens (2 mörk) og Tabby Tindell.

Emelía er kölluð „Hraðlestin“ á heimasíðu Kristianstad í umfjölluninni um leikinn. Báðar voru þær Emelía og Tilda að skora sitt fyrsta mark fyrr aðallið Kristianstad.

Emelía er því búin að opna markareikning sinn í atvinnumennsku fyrir sextán ára afmælið sitt sem er ekki fyrr en í byrjun næsta mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×