Skoðun

Sköpum gott veður í skólum borgarinnar

Þorleifur Örn Gunnarsson skrifar

Í Reykjavík á sér stað gróskumikið skólastarf á öllum skólastigum. Að starfinu stendur öflugur hópur kennara, starfsfólks og stjórnenda. Skólar, félagsmiðstöðvar og frístundaheimili borgarinnar eru fullir af framúrskarandi fagfólki sem við þurfum að gefa tækifæri til að blómstra í störfum sínum. Reykjavíkurborg undir forystu núverandi meirihluta setti fram metnaðarfulla Menntastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030 og hefur unnið markvisst að innleiðingu undanfarin misseri. Á skömmum tíma hafa orðið til mörg gríðarlega spennandi verkefni bæði í leik- og grunnskólum borgarinnar.

Undanfarin misseri hefur hins vegar álagið í skólum verið með þeim hætti að erfitt er að fá hugarró til að setjast niður og skapa. Kennsla er skapandi starf í grunninn. Á hverri sekúndu þarftu að taka ákvarðanir um framvindu kennslustundarinnar og þess á milli ertu að skapa ný verkefni, tengingar, leiðangra og rannsóknir með nemendum. Það vita það allir sem hafa reynt að það er erfitt að fá skipun um að setjast niður og vera skapandi.

Álagið á kennara og starfsfólk skóla hefur verið of mikið í alltof langan tíma. Það má líkja ástandinu við óveður og kennarar eru í hlutverki kotbænda. Þegar veðrinu slotar tímabundið þá þéttir þú kannski glugga en þú smíðar ekki nýtt hús.

Sköpun krefst hugarróar, að þú hafir ráðrúm til að setjast niður án þess að þurfa að kasta mæðinni. Sköpun þarf að gerast í öryggi og frjóum jarðvegi. Skapandi skólastarf gerist í samtali og við þurfum að styðja við teymisvinnu fagfólks. Við vitum í raun ekkert af hverju við erum að missa en ég er fullviss um að ef við léttum á álagi þar sem starfsfólk fær tíma og orku þá verður til einhver galdur.

Núverandi meirihluti hefur stóraukið möguleika fagfólks til að þróa skólastarfið, t.d. með styrkjum, en við verðum að gefa þeim betra ráðrúm til að skapa og styðja þannig enn frekar við innleiðingu á nýrri menntastefnu. Treystum fagfólkinu okkar.

Það verður að vera forgangsatriði borgarstjórnar á næsta kjörtímabili að skapa gott veður í skólum borgarinnar, létta álagi á starfsfólki skóla og skapa þeim starfsaðstæður þar þessi mannauður skólakerfisins fær tækifæri til að toppa sig.

Höfundur er grunnskólakennari og býður sig fram í 5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×