Hópur vörubílstjóra hefur undanfarið safnast saman við landamæri Kanada og Bandaríkjanna í Alberta og á mánudag safnaðist annar hópur saman við landamærin í Ontario.
Mótmælin við landamærin hafa haft þau áhrif að vöruflutningar hafa tafist allverulega og hafa atvinnugreinasamtök kallað eftir því að mótmælunum ljúki sem fyrst.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði við þingmenn í gær að mótmælin væru óásættanleg og að þau væru að hafa neikvæð áhrif á fyrirtæki og framleiðendur og raska daglegu lífi íbúa. Þá stóð hann við þær takmarkanir sem eru í gildi til að hefta útbreiðslu veirunnar.
„Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að binda enda á [mótmælin],“ sagði Trudeau á þinginu í gær. „Þessu verður að ljúka.“
Tamara Lich og BJ Dichter, skipuleggjendur mótmælanna, héldu blaðamannafund um stöðuna í gær en Dichter sagði mótmælendur ánægða þar sem Alberta og Saskatchewan ákváðu nýverið að aflétta ákveðnum Covid-takmörkunum. Að sögn Dichter var það vörubílstjórum að þakka.
Að því er kemur fram í frétt CTV um málið hefur lögreglan í Ottawa gefið það út að hver sem tekur þátt í mótmælunum með því að stoppa umferð geti átt ákæru yfir höfði sér fyrir að valda tjóni á eignum, þar sem íbúar verða fyrir miklum röskunum.
Í Ottawa er neyðarástand enn í gildi en að sögn lögreglu hafa 22 verið handteknir vegna mótmælanna. Þá hafa fleiri en 1300 sektir hafa verið gefnar út og eru um 80 sakamálarannsóknir í gangi.
Samkvæmt núverandi reglum þurfa allir vörubílstjórar sem koma inn í landið að vera fullbólusettir gegn kórónuveirunni sem margir hafa mótmælt harðlega.
Þá hafa einnig fleiri mótmæli sprottið upp víðs vegar um Kanada vegna bólusetningarvottorða sem nauðsynlegt er að framvísa til að sækja ýmsa þjónustu og ýmissa annarra Covid-takmarkanna.
Svipuð mótmæli hafa einnig brotist út víðar í heiminum, til að mynda í Frakklandi og Ástralíu. Þá virðist umræða á samfélagsmiðlum benda til þess að vörubílstjórar stefni á að mótmæla í Washington-borg á næstunni.