Innlent

Fjór­tán prósent grunn­skóla­barna fjar­verandi vegna veikinda í síðustu viku

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Tæplega eitt af hverjum sjö grunnskólabörnum í Reykjavík var fjarverandi í síðustu viku. 
Tæplega eitt af hverjum sjö grunnskólabörnum í Reykjavík var fjarverandi í síðustu viku.  Vísir/Vilhelm

Töluverður fjöldi grunnskóla- og leikskólanemenda voru fjarverandi vegna veikinda í skólum í Reykjavík í síðustu viku en um 12,4 prósent leikskólabarna voru fjarverandi og 14 prósent grunnskólabarna. Þetta kemur fram í svari skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu.

Fjölmargir starfsmenn skóla voru sömuleiðis fjarverandi í síðustu viku vegna eigin veikinda eða veikinda fjölskyldumeðlima. Að meðaltali voru 11,6 prósent starfsmanna leikskóla fjarverandi og 9,9 prósent starfsmanna grunnskóla.

Einnig hafa verið teknar saman tölur um fjarveru starfsmanna frístundaheimila, félagsmiðstöðva og skólahljómsveita en í síðustu viku voru 7,6 prósent starfsmanna frístundaheimila fjarverandi, 4,9 prósent starfsmanna félagsmiðstöðva, og 1,7 prósent starfsmanna skólahljómsveita.

Í svarinu er tekið fram að í tölunum sé ekki greint hverjar ástæður veikinda eru og því getur verið um að ræða almenn veikindi barns eða fjölskyldumeðlima eða sóttkví vegna smita á heimili. Er það vegna þess að upplýsingarnar eru ekki nægilega áreiðanlegar vegna persónuverndarsjónarmiða.

Þá segir að ástæður fjarvista geti verið fleiri og heildarfjarvistir bæði barna og starfsmanna hærri en fram kemur í tölunum sem hefur sömuleiðis áhrif á starfsemina.


Tengdar fréttir

Miklar breytingar á sóttkví

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera breytingar á sóttkví hér á landi. Frá og með miðnætti mun fólk sem verður útsett fyrir smitum utan heimilis ekki sæta sóttkví heldur fara í smitgát. Börn og unglingar verða algjörlega undanþegin reglum um smitgát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×