Innlent

Halda opið prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sjálfstæðismenn munu halda opið prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar í vor.
Sjálfstæðismenn munu halda opið prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Vísir/Hanna

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hefur ákveðið að halda opið prófkjör fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Prófkjörið mun fara fram annað hvort tólfta eða nítjánda mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, en ákvörðunin var tekin á fjölmennum fundi ráðsins á hótel Nordica í kvöld. 

Dagsetning prófkjörsins og framborðsfrestur verður ákveðinn af yfirkjörstjórn á næstu dögum og auglýst sérstaklega. Fram kemur í tilkynningunni að tillaga um opið prófkjör hafi verið samþykkt samhljóða af þeim rúmlega tvö hundruð sem mættu á fundinn. 

Þeir sem geta tekið þátt í prófkjörinu eru allir fullgildir meðlimir sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík sem búsettir eru í borginni auk þeirra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, sem munu eiga kosningarétt í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum í vor og hafa undirritað inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í Reykjavík fyrir lok kjörfundar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×