Þetta kemur fram í frétt Washington Post en þar segir að vera flutningur leynilegra gagna til Flórída, þar sem Trump býr, muni auka á möguleg lagaleg vandræði hans vegna meðferða opinberra gagna sem hefðu samkvæmt lögum átt að enda hjá Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna.
Samkvæmt bandarískum lögum eiga öll opinber gögn eins og minnisblöð, bréf, glósur, tölvupóstar og ýmislegt annað að enda í Þjóðskjalasafninu.
Heimildarmenn Washington Post segja ekki ljóst hve mikið af leynilegum gögnum voru í þeim fimmtán kössum af skjölum og öðru sem starfsmenn Þjóðskjalasafnsins sóttu nýverið til Flórída. Hins vegar hafi sum skjölin verið merkt sem mjög viðkvæm og hefðu samkvæmt lögum einungis átt að vera aðgengileg fáeinum háttsettum embættismönnum.
Fram kom í gær að starfsmenn Þjóðskjalasafnsins báðu dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna nýverið að rannsaka málið en það var eftir að gögnin leynilegu uppgötvuðust.
Sjá einnig: Báðu um rannsókn á gagnameðferð Trumps
Einnig hefur komið í ljós að Trump var gjarn á að rífa skjöl sem hann las og hafa starfsmenn skjalasafnsins þurft að líma margar blaðsíður saman eftir að Trump steig úr embætti. Hann var einnig gjarn á það að taka leynileg gögn með sér í híbýli sín í Hvíta húsinu þar sem þau söfnuðust oft upp.
Heimildarmenn Washington Post úr búðum Trumps segja hann hafa farið leynt með gögnin þegar hann pakkaði þeim í Flórída í síðasta mánuði. Hann hafi ekki leyft öðrum að sjá þau.
Einn heimildarmaður segir að líklega hafi einhver af þeim skjölum sem Trump tók með sér í híbýli sín endað í kössum sem fluttir voru úr Hvíta húsinu og til Flórída.
Eftirlits- og skipulagsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem leidd er af Demókrötum, hefur tekið gagnameðferð Trumps til skoðunnar, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar.
Þvertekur fyrir að hafa sturtað skjölum niður
Maggie Haberman, blaðakona New York Times, er að gefa út bók um Trump og forsetatíð hans. Í dag sagði hún svo frá því að í bókinni kæmi fram að starfsmenn Hvíta hússins hefðu nokkrum sinnum fundið pappír í stífluðu klósetti í byggingunni.
Þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Trump hefði sturtað niður skjölum sem hann hefði rifið eftir lestur.
Í tilkynningu sem Trump sendi frá sér í dag þvertekur hann fyrir að þetta sé satt. Hann segir Haberman vera að ljúga til að kynna bók sína.