„Staðan á spítalanum er bara svipuð, það eru álíka margir sjúklingar inniliggjandi og í gær, 34 minnir mig. En starfsfólki með Covid, sem fer í einangrun, fer fjölgandi síðan í gær,“ sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans, í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Við erum alltaf að skoða þetta á hverjum degi, hvernig staðan er og hvort það sé ástæða til þess að hækka viðbúnaðarstig spítalans. Eins og staðan er núna er þess ekki þörf. En það sem er okkar helst glíma er í raun og veru fjöldi starfsmanna sem eru í einangrun,“ sagði Guðlaug Rakel.
Nú séu um 27 prósent starfsmanna spítalans þegar búnir að fá Covid. Hún segist vona að einangrun starfsmanna fari því að verða minna vandamál, en telur ekki að komið sé að því enn. Hún á von á því að róðurinn á spítalanum verði áfram þungur.
„Já, ég á nú von á því, vegna þess að smit innan spítalans er töluvert dreift. Við erum með þetta á níu ólíkum deildum innan spítalans. Það er ákveðið púsluspil að koma því saman og einangra sjúklinga, og vernda aðra sjúklinga fyrir smiti.“
Líkt og fjallað hefur verið um í dag hafa reglur um sóttkví verið afnumdar. Á miðnætti í kvöld taka þá gildi rýmkaðar sóttvarnatakmarkanir sem fela meðal í sér að 200 mega koma saman og leyfilegur opnunartími veitinga- og skemmtistaða lengist um klukkustund.