„Við erum spennt fyrir því að hafa opið til eitt í dag, þó að vissulega finnst okkur það skrýtið að það sé bara alltaf verið að mjaka einum og einum klukkutíma á okkur veitingamennina. Klukkutími í þessum bransa er mikil breyta og okkur finnst að það ætti í rauninni að aflétta öllu strax,“ sagði Geoffrey Huntingdon-Williams, einn eigenda Priksins, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hann segist orðinn langþreyttur á því að heyra að brátt verði allar hömlur á rekstri hans á bak og burt, og virðist taka því með nokkrum fyrirvara.
„Því við höfum heyrt þetta áður.“
Þrátt fyrir það segist Geoffrey spenntur fyrir kvöldinu og á von á góðri stemningu á Prikinu, sem er einn vinsælasti skemmtistaðurinn í miðborginni.
„Það verður partý í kvöld, það verður veisla. Opið til eitt, fílingur. Við bíðum bara spennt átekta og sjáum hvernig þetta verður eftir tvær vikur en við hefðum viljað sjá aðeins meira í þetta skiptið, að vanda,“ sagði Geoffrey.