Þá falla fjöldatakmarkanir í verslunum á brott, auk þess sem heimilt verður að halda þúsund manna sitjandi viðburði, að því tilskildu að allir noti grímu. Þá er heimilt að halda hlé á viðburðum og selja veitingar án takmarkana.
Sund- og líkamsræktarstöðvar mega þá taka á móti gestum með fullum afköstum og opnunartími staða með vínveitingaleyfi lengist um eina klukkustund, þannig að heimilt verður að taka á móti gestum til miðnættis og þjóna til borðs til klukkan eitt, en eftir það þurfa gestir að hafa yfirgefið staðinn.
Menntskælingar geta gert sér glaðan dag
Þær breytingar sem vakið hafa hvað mesta gleði í samfélaginu eru eflaust þær sem hafa með skólastarf og annað tengt grunn- og framhaldsskólum. Með reglugerðinni er fyrri reglugerð um takmörkun á skólastarfi felld brott, og gilda því almennar reglur um samkomutakmarkanir í skólum, þó með takmörkunum til rýmkunar.
Þá verður heimilt að halda skólaskemmtanir á vegum grunn- og framhaldsskóla án nokkurra takmarkana.
Sóttkví heyrir sögunni til
Í gær, föstudag, tók þá gildi reglugerð sem fól í sér afnám sóttkvíar vegna smita innanlands. Þannig losnuðu um tíu þúsund manns úr sóttkví í dag, og þurftu ekki að mæta í sýnatöku til þess að losna úr sóttkví. Breytingin hefur það í för með sér að þeim sem hafa verið útsettir fyrir smiti verður ekki skylt að sæta sóttkví, þó áfram sé hvatt til hennar.
Reglur um einangrun þeirra sem greinast með kórónuveiruna haldast hins vegar óbreyttar.
Hér má nálgast tilkynningu á vef Stjórnarráðsins þar sem farið er í saumana á breytingunum.