Fjallað verður um stöðuna í hádegisfréttum Bylgjunnar. Þá verður rætt við Guðmund Inga Þóroddsson, frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem var meinuð þátttaka í prófkjörinu á síðustu stundu þar sem hann er enn á reynslulausn eftir fangelsisvist. Hann telur sig hins vegar kjörgengan samkvæmt lögum.
Farsóttahúsin halda áfram að sprengja utan af sér og til stendur að opna annað hús á Akureyri. Starfsfólk er þó farið að huga að starfslokum.
Fjármálaráðherra segir stefnt að því að ráðist verði í fyrsta áfangann af sölu þess sem eftir er af eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka strax í næsta mánuði. Gott gengi bankans ætti að tryggja að gott verð fáist fyrir hlutabréfin.
Einnig verður rætt við fangaverði en um 26 nemendur eru í Fangavarðaskólanum þar sem um þriðjungur þeirra eru konur. Fangavörður segir starfið glettilega skemmtilegt og gefandi.
Þetta og margt fleira í hádegisfréttum Bylgjunnar klukkan 12.