Spennan milli Rússlands og Úkraínu, og bandamanna hennar, hefur aukist gífurlega á undanförnum dögum og yfirvofandi innrás talin líklegri með hverjum deginum. Nú hefur rúmur tugur ríkja biðlað til ríkisborgara sinna í Úkraínu að fara þaðan, þar á meðal Ísland.

Úkraínumenn virðast undir það búnir að Rússar ráðist inn í landið og hafa margir almennir borgarar til að mynda tekið þátt í hernaðaræfingum í Kænugarði.
Biden og Pútín funduðu í gær
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti funduðu í gær í von um að losa um spennuna sem myndast hefur milli vesturveldanna og Rússlands vegna Úkraínu. Biden varaði Pútín við því að vesturveldin muni svara af hörku ráðist Rússar inn í Úkraínu og muni slík innrás valda miklu kvalræði og einangra stjórnvöld í Moskvu.
Meira en 100 þúsund rússneskir hermenn eru nú staddir á landamærum Rússlands og Úkraínu, sem Bandaríkin og bandamenn þeirra telja til marks um að Rússland hyggi á innrás í Úkraínu. Rússar taka fyrir það.

Samkvæmt fréttum frá Hvíta húsinu bar fundurinn engan árangur og staðan er enn óbreytt. Þá segir í yfirlýsingu frá Kreml að Biden hafi ekki hlusað á áhyggjur Rússa um stækkun Atlantshafsbandalagsins og komu erlendra hermanna til Úkraínu.
Ekkert í máli Pútíns bendi til innrásar
Biden fundaði með Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Volodymyr Zelenskiy forseta Úkraínu að loknum fundi hans með Pútín í gær en þeir hafa báðir fundað með Pútín á undanförnum dögum. Að sögn franska forsetaembættisins gaf ekkert til kynna í máli Pútíns við Frakklands- og Bandaríkjaforseta að Rússland væri að undirbúa innrás í Úkraínu.

„Við munum samt sem áður fylgjast grannt með stöðu mála og starfsemi rússneska hersins til þess að forðast það versta,“ segir í yfirlýsingu frá franska forsetaembættinu.
Biden hefur sömuleiðis fundað með Alexander Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands, sem á landamæri við Úkraínu í norðri. Lúkasjenka og Pútín hafa verið nánir bandamenn og hræðast margir að ráðist Rússar inn í Úkraínu úr austri muni Hvítrússar ráðast inn úr norðri, þar sem hvítrússneski herinn er samankominn á landamærunum að Úkraínu.
Rúmur tugur ríkja biðlar til ríkisborgara sinna að flýja Úkraínu
Bandarísk yfirvöld hafa byrjað að flytja flest sendiráðsfólk sitt í Úkraínu aftur heim til Bandaríkjanna og beint því til ríkisborgara sinna að fara frá landinu sem fyrst. Þá hefur utanríkisráðuneyti Íslands óskað eftir því að Íslendingar í Úkraínu láti vita af sér og ráðuneytið vinnur nú að því að koma sér í samband við viðkomandi Íslendinga.

Rússnesk yfirvöld hafa sömuleiðis tekið ákvörðun um að hagræða sinni utanríkisþjónustu í Úkraínu með því að fækka starfsfólki í sendiráði sínu í Kænugarði. Ísrael, Portúgal, Belgía, Bretland og fleiri ríki hafa sömuleiðis beint því til sinna ríkisborgara að yfirgefa Úkraínu.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Pútín hafi fundað með Alexander Lúkasjenka forseta Hvíta-Rússlands en þar átti að segja að Biden hafi fundað með honum. Þetta hefur verið leiðrétt.