„Njarðvík var bara mikið betra lið hér í dag og eru búnar að vera það í vetur þegar við höfum mætt þeim. Við erum bara ekki nógu góðar, það er bara svoleiðis. Við þurfum bara að gera miklu betur. Við vorum hér í kvöld með 7-8 einstaklinga meðan þær voru með eitt grjóthart lið.“
Þrátt fyrir að hafa unnið sex leiki í röð fyrir þessa tvo tapleiki sem nú eru komnir í hús, vildi Halldór ekki taka undir að það hefði verið góður gangur á liðinu hans fram til þessa. Árið 2022 væri í raun alveg ómögulegt og hann óskaði þess heitast að eiga tímavél og fara eins og tvo mánuði aftur í tímann.
„Það hefur náttúrulega ekki verið að ganga vel. Við töpuðum seinasta, þetta var þriðji leikurinn okkar á árinu 2022 og við höfum bara ekki mætt í þessa leiki. Ef ég ætti eina ósk þá myndi ég óska þess að árið væri aftur 2021 og gætum verið að spila þann körfubolta sem við vorum að spila. Þetta er hreinlega ekki sama lið og ég var með í höndunum hér fyrir stuttu. Við þurfum bara að fara í alvöru naflaskoðun um hvað við ætlum að gera ef við ætlum að reyna að gera atlögu að þessum efstu sætum. Við höfðum smá vald á því að geta náð 1. sætinu en það er bara algjörlega farið og lið fara bara að sjá það að við séum „up for grabs“. Það er eitthvað sem við sem einstaklingar í liðinu þurfum bara að taka alvöru umræðu um, tala um það hvað við ætlum að gera.“
Þrátt fyrir ákveðið vonleysi eftir þessa frammistöðu viðurkenndi Halldór þó að Fjölnir væri ennþá í bullandi séns í toppbaráttunni.
„Sem betur fer eigum við leik á miðvikudaginn til að koma til baka. Við erum ennþá í jöfnum sætum með Val og Njarðvík, öll með 5 töp en við hefðum geta verið að setja okkur í góða stöðu á toppnum með því að mæta í þennan leik en það eru bara allir hausarnir einhversstaðar annarsstaðar, ég veit ekki hvar. En ég get bara ekki beðið eftir að komast inná æfingar, þar er greinilega vandamálið. Við komum inn í þennan leik og ætlum að tuða í hvert einasta skipti sem þar sem við fáum ekki akkúrat það sem við viljum. Við höldum að við séum með eitthvað í áskrift hjá dómurunum. Það er bara margt sem við þurfum að laga og vonandi gerist það í næsta leik.“