„Ég á auðvelt með að vera berskjölduð í gegnum listina,“ segir Ásdís en gjörningalistin gerir svolitla kröfu á listamanninn að leyfa sér að vera berskjaldaður. Hún byrjaði fyrst á að setja myndavélina fyrir framan sig og búa þannig til listaverk ásamt því að koma fram á sviði.

„Maður verður kannski oft mjög stressaður en það hentar mér samt vel.“ Hins vegar er munur á listinni og einkalífinu hjá þessari listakonu. „Þegar það kemur að því að deila kannski á samfélagsmiðlum einhverju videoi þá verð ég rosalega feimin. Ég er alveg til í að auglýsa sýninguna og svona en mér finnst svona að deila á samfélagsmiðlum - það er eitthvað allt annað dæmi fyrir sjálfa mig.
Ég sjálf, fyrir utan myndlistina, er meira prívat persónuleiki. Það er dálítið magnað, að maður geti verið eitt í listinni og svo annað í lífinu.
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.