Erlent

Leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands og Rússlands eygja enn von á lausn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Rússneski kafbáturinn Rostov-on-Don siglir í átt að Bosporussundi til að taka þátt í umfangsmiklum heræfingum sem staðið hafa yfir vegna spennunar á svæðinu.
Rússneski kafbáturinn Rostov-on-Don siglir í átt að Bosporussundi til að taka þátt í umfangsmiklum heræfingum sem staðið hafa yfir vegna spennunar á svæðinu. epa/Erdem Sahin

Leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands og Rússlands segjast nú vongóðir um að hægt verði að leysa Úkraínudeiluna svokölluðu á diplómatískum grundvelli.

Þeir Joe Biden Bandaríkjaforseti og Boris Johnson forsætisráðherra Breta ræddu saman í síma í gærkvöldi um ástandið í Úkraínu en þeir hafa báðir síðustu vikur varað ítrekað við mögulegri innrás Rússa í landið. 

Rússar neita þó fyrir allar slíkar fyrirætlanir þrátt fyrir að þeir hafi safnað meira en 100 þúsund hermönnum að landamærunum. 

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa sagði í gær að enn væri hægt að leysa málið við samningaborðið og Biden og Johnson voru á sama máli eftir símafundinn. 

Sérfræðingar segja þó að stóra deilumálið sé enn illleysanlegt. 

Úkraínumenn sækjast eftir inngöngu í NATÓ, sem er stór þyrnir í augum Rússa sem krefjast þess að vesturveldin lýsi því yfir að slíkt komi ekki til greina. Vesturveldin hafa hinsvegar þegar hafnað þeirri kröfu og því virðist sem allt sé enn í hnút í málinu þrátt fyrir bjartsýnistón ráðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×