Erlent

Minnst átján látnir eftir 25,8 sentímetra rigningu á þremur tímum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin á sama svæði árið 2011 en þá dóu minnst 356 í aurskriðum og flóðum.
Þessi mynd var tekin á sama svæði árið 2011 en þá dóu minnst 356 í aurskriðum og flóðum. EPA/ANTONIO LACERDA

Minnst átján eru látnir eftir aurskriður og flóði í Rio de Janeiro-ríki í Brasilíu í gær. 25,8 sentímetra rigning mældist á svæðinu á einungis þremur klukkustundum, sem er nærri því jafn mikið og mældist síðustu 30 daga þar áður.

Óttast er að fleiri hafi látist og að fleiri líka muni finnast þegar björgunarstarf kemst á fullt í dag, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Svæðið sem um ræðir er mikið fjalllendi en íbúar borgarinnar Petropolis hafa birt myndir og myndbönd á samfélagsmiðlum sem sýna bíla og heilu húsin dregin í burtu af skriðum og flóðum.

Hér að neðan má sjá myndefni frá Sky News.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rigning og aurskriður leika þetta hérað grátt en hundruð dóu í sambærilegum aðstæðum.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er í opinberri heimsókn í Rússlandi en hann sagðist hafa skipað ráðherrum sínum að styðja þau samfélög sem hafi orðið fyrir barðinu á rigningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×