Staðan á landamærum Rússlands og Úkraínu fer síversnandi. Loftvarnaflautur hljómuðu í bæjum og borgum í Donetskhéraði í austurhluta Úkraínu í dag þegar leiðtogar rússneskumælandi uppreisnarmanna gáfu íbúum merki um að flýja héraðið og halda yfir landamærin til Rússlands. En þeir hafa einhliða lýst yfir sjálfstæði héraðsins.
Þá varð bílalest friðarsinna fyrir loftárásum á átakasvæðinu, að því er segir í frétt AP fréttaveitunnar.
Joe Biden flutti ávarp í Hvíta húsinu í kvöld þar sem hann sagði njósnagögn Bandaríkjanna benda til þess að Pútín hyggi á innrás.
„Frá og með deginum í dag er ég sannfærður um að hann hafi þegar ákveðið sig. Við teljum okkur hafa ástæðu til að halda það,“ sagði forsetinn.
Þá sagði Biden í gær að að ríkisstjórn sín hefði ástæðu til að telja að Rússar ætluðu sér að skapa átyllu til að gera aðra innrás í Úkraínu.
Stór sprenging varð í eldsneytisleiðslu í borginni Luhan sem er á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna í Úkraínu. Orkufyritækið Luganskgaz hefur haldið því fram að skemmdarvargar hafi valdið sprengingunni. Sérfræðingar í varnarmálum telja mögulegt að um sviðsetta átylluárás hafi verið að ræða.
Ekki of seint að hætta við
Biden hvatti Pútín til að hugsa sig tvisvar um áður en hann hefur innrás og ítrekaði hótun um viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Hann sagði þó að Bandaríkjaher myndi ekki senda hermenn til Úkraínu.
Vestrænir leiðtogar komu saman á öryggisráðstefnu í Munchen í dag. Þeir hafa varað við yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu undanfarna daga. Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands hvatti Putin til að kalla rúmlega hundrað þúsund manna herlið sitt til baka frá landamærunum að Úkraínu.
„Úkraínumenn hafa ekki skapað þetta hættuástand heldur Rússar. Við hvetjum því Rússa til að draga herlið sitt nú þegar til baka,“ sagði Baerbock.
Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna hvatti Rússa til að velja samningaleiðina sem enn væri opin. Samstaða Vesturlanda innan NATO og Evrópusambandsins hafi komið Pútín Rússlandsforseta á óvart.
Hlýða má á ávarp Bandaríkjaforseta í spilaranum hér að neðan en það hefst á 47. mínútu myndbandsins.