„Það verður verst syðst á landinu með suðurströndinni, þar verður bæði snjókoma með köflum og svo mjög mikill vindur, 23-28 m/s í meðalvindi. Þar eru í gildi appelsínugular viðvaranir í kvöld og fram á morgundaginn,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofunni.
Færð er þegar tekin að spillast en veginum frá Skógum að Vík í Mýrdal hefur verið lokað vegna veðurs og þá hefur veginum frá Markarfljóti að Vík einnig verið lokað. Óvissustig er á báðum vegum til klukkan sex síðdegis á morgun. Þá hafa björgunarsveitur á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi verið kallaðar út það sem af er degi til að losa fasta bíla vegna ófærðar.
Stutt stund milli stríða
Veðrið gangi að mestu niður seinni part á morgun en á mánudag er svo jafnvel útlit fyrir svipað óveður og 7. febrúar, og rauð viðvörun mögulega í kortunum.
„Næsta lægð nálgast okkur síðan óðfluga síðdegis á mánudaginn og þá hvessir ört og þá er útlit fyrir óveður af verri gerðinni á landinu á mánudagskvöldið og aðfaranótt þriðjudags,“ segir Teitur.
„Eins og spáin er núna virðist það slaga í að verða jafnvont og veðrið sem var 7. febrúar síðastliðinn. En við fylgjumst vel með spánum sem verða nákvæmari eftir því sem nær dregur og setjum út viðvaranir við hæfi.“
Þannig að það gæti stefnt í rauða viðvörun?
„Hún verður væntanlega annað hvort appelsínugul eða rauð, það kemur í ljós þegar spárnar skýrast betur.“