Þetta sagði Johnson í samtali við BBC í München, þar sem hann er staddur á öryggisráðstefnu. Hann sagði einnig að þær upplýsingar sem hann hefði bentu til þess að Rússar væru að skipuleggja innrás með því markmiði að umkringja Kænugarð, höfuðborg Úkraínu.
Johnson sagði að slík innrás myndi leiða til mikilla hörmunga og fjölmargra dauðsfalla.
Yfirvöld í Bandaríkjunum áætla að um 170 til 190 þúsund rússneskir hermenn séu nú við landamæri Úkraínu í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Þessar tölur innihalda einnig aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu en þeir eru hliðhollir Rússlandi.
Sjá einnig: Aðskilnaðarsinnar setja á almenna herkvaðningu
Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi tilkynnti í morgun að rússneskir hermenn, sem hafa verið í landinu við æfingar, verði þar lengur.
„Ég er hræddur um að áætlunin sem við sjáum sé eitthvað sem gæti orðið mesta stríð í Evrópu frá 1945, með tilliti til umfangs,“ sagði Johnson við BBC. Hann sagði þar að auki að ef til innrásar kæmi, þá yrðu Rússar beittir umfangsmiklum refsiaðgerðum.
Meðal annars kæmi til greina að skera á aðgang Rússar að dölum og pundum.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gærkvöldi að einnig yrði skrúfað fyrir aðgengi Rússa að fjármálamörkuðum í Evrópu og lokað á aðgang þeirra að ýmsum hátæknivörum.
Hún sagði að „hættulegar pælingar Kreml“ gætu kostað Rússland mikla hagsæld, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur kallað þjóðaröryggisráð sitt á fund í dag en ráðamenn vestanhafs hafa sagt að Rússar séu tilbúnir til innrásar í Úkraínu.
Vill refsiaðgerðir strax
Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, var einnig staddur í München í gær þar sem hann gangrýndi vestuveldin svokölluðu fyrir aðgerðarleysi. Í ávarpi sínu á öryggisráðstefnunni spurði Selenskí eftir hverju þeir væru eiginlega að bíða.
„Við þurfum ekki refsiaðgerðir ykkar eftir að hagkerfi okkar hrynur og hlutar lands okkar eru hersetnir,“ sagði Selenskí.