Handbolti

Teitur og félagar halda í við toppliðin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu góðan sigur í dag.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu góðan sigur í dag. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu góðan fjögurra marka útisigur í þýrku úrvalsdeildinni í handbolta er liðið heimsótti Erlangen í dag. Lokatölur urðu 26-30, en Flensburg lyfti sér upp að hlið Kiel í öðru sæti með sigrinum.

Teitur og félagar náðu góðu forskoti í upphafi leiks og leiddu með fimm mörkum þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður. Heimamenn í Erlengen náðu þó að jafna metin fyrir hlé, áður en Flensburg náði forystunni á ný. Staðan í hálfleik var því 15-13, Flensburg í vil.

Gestirnir í Flensburg náðu fljótt fimm marka forystu á ný í síðari hálfleik, og í þetta skipti létu þeir hana ekki af hendi. Liðið hélt heimamönnum í hæfilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks og vann að lokum góðan fjögurra marka sigur, 26-30.

Teitur Örn komst ekki á blað fyrir Flensburg, en lagði þó upp eitt mark. Flensburg situr nú við hlið Kiel í öðru sæti deildarinnar með 32 stig eftir 20 leiki, sex stigum á eftir toppliði Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×