Skoðun

Þegar grunn­skóla­kennarar, leik­skóla­kennarar, stuðnings­full­trúar, fé­lags­ráð­gjafar og annað fólk sam­þykkir of­beldi gegn barni

Alma Björk Ástþórsdóttir skrifar

Eftir að kennara voru dæmdar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar má segja að samfélagið hafi skipst í tvær fylkingar; með og á móti ofbeldi gegn barni.

Af málinu og umræðunni á samfélagsmiðlum geta börnin okkar dregið þann lærdóm að:

1.Þú mátt beita barn ofbeldi ef þér finnst samkvæmt huglægu mati barnið eiga það skilið.

2.Það er í lagi að sýna dónaskap og vanvirðingu á samfélagsmiðlum

Kommentin eru óvægin og fjalla í hnotskurn um illa uppalið barn, óhæfa foreldra og rétt kennarans til þess að slá barnið. Sem betur fer eru margir í skólasamfélaginu óhressir með þessa umræðu en þó er sumt af því fólki sem líkar við færslurnar fólk sem starfar með börnum. Leik- og grunnskólakennarar, stuðningsfulltrúar, félagsráðgjafar og fleira fólk sem umgengst börn alla daga.

Í nýlegum pistli fjallar formaður grunnskólakennara um að sífellt yngri börn sýni kennurum virðingarleysi og að íslenskt samfélag þurfi að setjast niður og íhuga hvað sé ásættanleg hegðun í samfélagi. Við ættum kannski að byrja hér. Í kommentakerfum fjölmiðla. Er þetta ásættanleg framkoma fullorðins fólks og þar á meðal starfsmanna skólasamfélagsins?

Eftir að netverjar fengu útrás fyrir þá skoðun sína að barnið hafi verið óalandi og óferjandi kom í ljós að um ræðir barn sem hefur glímt við mikla vanlíðan og var m.a. með áverka á úlnlið eftir sjálfsskaða. Úlnliðinn sem kennarinn greip um. Að öllum líkindum hefur þetta barn ekki fengið nauðsynlega þjónustu vegna brotalama í kerfinu og biðlistastefnu stjórnvalda. Og lögfræðingur kennarans sem einnig starfar sem lögfræðingur félags grunnskólakennara hafði alveg örugglega vitneskju um stöðu þessa nemanda. Þrátt fyrir það er rituð frétt á vefsíðu félags grunnskólakennara með tilvísun í dóminn þar sem kemur fram einhliða umfjöllun um agavandamál nemandans.

Er það sú virðing sem formaður félags grunnskólakennara vill að samfélagið læri að sýna?

Höfundur er stofnandi grasrótarhópsins Sagan okkar, sem berst fyrir réttindum barna í skólakerfinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×