Greint var frá því í morgun að Biden hafi, í stórum dráttum, fallist á leiðtogafund með Pútín Rússlandsforseta til að ræða ástandið í Úkraínu.
Það eru Frakkar sem stinga upp á leiðtogafundinum en Hvíta húsið hefur þegar sagt að fundurinn geti aðeins farið fram ráðist Rússar ekki inn í Úkraínu. Hugmyndin með fundi leiðtogana er að reyna að leysa deiluna sem nú er uppi en spennan á svæðinu hefur ekki verið eins mikil síðan á dögum kalda stríðsins.
Tillaga Frakka var lögð fram eftir að Emmanuel Macron forseti hafði rætt við Pútín í síma á tveimur fundum í rúma þrjá klukkutíma samtals.
Dmitry Peskov sagði við blaðamenn í dag að engar niðurnegldar áætlanir væru uppi um að halda slíkan leiðtogafund, en að möguleikinn væri vissulega fyrir hendi.
Yfirvöld í Bandaríkjunum áætla að um 170 til 190 þúsund rússneskir hermenn séu nú við landamæri Úkraínu í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Þessar tölur innihalda einnig aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu en þeir eru hliðhollir Rússlandi.