Alexandra og Maxim Fiandino frá Frakklandi sátu til að mynda föst í um fimm klukkustundir í Þrengslunum áður en þeim var bjargað. Þegar fréttastofa náði tali af þeim voru þau skelkuð eftir uppákomuna.
„Við vorum hrædd þegar við vorum ein en núna er allt í lagi, við erum örugg,“ segir Alexandra í samtali við fréttastofu.
Aðspurð um hvort þau hafi upplifað annað eins óveður segir Maxim að hann hafi vissulega upplifað slæmt veður áður. „En ekkert eins og þetta, þetta er mjög mikið,“ segir Maxim.
Þau hafa nú verið á ferðalagi á Íslandi í nokkra daga en þurfa nú að finna sér hótel og leið til að koma sér þangað.
„Við sjáum til á morgun hvernig við sækjum bílinn,“ segir Alexandra.
Hellisheiðinni og Þrengslunum var lokað upp úr klukkan 16 í dag en löng bílaröð myndaðist skömmu síðar og eru dæmi um fleiri einstaklinga sem hafa setið fastir í bílum sínum í marga klukkutíma.
Fjöldahjálpastöð var opnuð í Þorlákshöfn í kjölfarið, sem og í Hellisheiðarvirkjun og var fljótlega hafist handa við að ferja ferðalanga á milli.