Skoðun

Geir­finns­mál og rit­höfundar í lög­reglu­búningum

Jón Ármann Steinsson skrifar

Nú er búið að vinda aðeins ofan af GG málunum. Í dag, nær hálfri öld síðar, má fullyrða að réttarglæpur hafi verið framinn og sé brugðið ljósi þá atburðarás má segja að hér sé um að ræða skipulagða glæpastarfsemi. Enginn opinber áhugi er á að fjárfesta í rannsókn til að upplýsa málið, þ.m.t. að rannsaka rannsakendur, eða ræða við vitni og málsaðila sem enn eru hérna megin moldar. GG málin eru og verða því áfram krabbamein á þjóðarsálinni.

Sama sagnaminni í tveimur morðsögum

Ef einhver er þeirrar skoðunar að GG málin séu ekki hreinræktaður skáldskapur þá legg ég til að viðkomandi skoði “morðsögurnar” tvær út frá bókmenntalegu sjónarhorni. Þá sést að þær eru nánast samhljóma. Til eru rithöfundar sem lifa á að skrifa sömu söguna aftur og aftur með breyttum persónum en nýta sömu sagnaminni sem upphaf, miðju og endi. Á ensku kallast svona rithefting að vera “one trick pony” og endurnýting á sagnaminninu er góð vísa sem verður aldrei of oft kveðin. Höfundurinn er bara ekki nógu hugmyndaríkur til að finna annan þráð.

Hvað er þá sagnaminni? Bókin Hugtök og heiti í bókmenntafræði skilgreinir það sem “minnsta eining sem borið getur uppi frásögn eða söguþráður er samsettur úr.” Dæmi er t.d. að sonur karls í koti brýst út úr fátækt, eignast prinsessuna og hálft konungsríkið. Þetta einfalda sagnaminni er sameiginlegur endurvinnslugámur Hollywood í dag.

Einhæfir metsöluhöfundar

Sagnaminni GG málsins eru tvær samhljóma sögur því höfundarnir eru ekki færir um að gera þær nógu ólíkar til að þær standi einar. Í báðum hitta einstaklingarnir (G & G) unga smákrimma í fyrsta skipti, vímuefni koma við sögu, bæði G & G kalla smákrimmana dópista, og þeir móðgast og hittingurinn endar með morði. Þúsundir af blaðsíðum, ákærum og dómum tíunda þessar sögur athugasemdalaust. Ekki má gleyma eftirleik "morðanna": Líkin eru flutt frá gjörningsstað og þau geymd, grafin niður og upp, og aftur niður, og finnast aldrei.

Þá eru smákrimmarnir teknir höndum fyrir þjófnað, smygl og dóp. Í framhaldi fá “rithöfundarnir” uppljómun um þessi tvö mannshvörf tengist unglingunum. Unglingarnir neita sök en játa samt heilan fjölskyldupakka af öðrum lögbrotum. En þegar kemur að “morðunum” tveimur þá eru þessir sömu unglingar svo vel skipulagðir og forsjálir að þeir hafa samnefnst um að villa fyrir lögreglunni löngu áður en þau eru handtekin - en ekki um eigin dópsölu, smygl og þjófnaði, heldur eingöngu um þessi tvö “morð”.

Rithöfundarnir selja síðan réttarkerfinu þessa samhljóma skáldsögu, tvisvar! Tvö morð, nánast eins. Geri aðrir betur.

Amatörar í spunastuði

Rithöfundurinn kemur alltaf fram grímulaus í orðum og gerðum sögupersóna sinna. Í GG málum er skoðun skýrsluhöfundanna á dópistum almennt kjölfestan. Höfundarnir sátu sveittir við ritvélina dag og nótt í þvílíku spunastuði að sagan breyttist við hverja niðursetu, fram og til baka. Þeir voru eins og rithópur amatöra að semja söguþráð í hugarástandi sem kallast “breinstorming” á góðri íslensku. Þemað hjá þeim er fyrirlitning á þeim sem sátu hinum megin við borðið í yfirheyrsluherberginu; aumingjar, dópistar og utangarðsfólk, rétt svo komið af unglingsaldri. Þeirra fordómar, ekki mínir.

Það er skrítið að lögreglan hafi ekki tekið GG málin upp að nýju en kannski sýnir það best að samtrygging kerfisins á litla Íslandi er "fjórða valdið" sem leyfir ekki slíkt. Þetta svokallaða fjórða vald (sem ég hnýti hér saman úr lögreglu, saksóknurum, dómurum í undirrétti og hæstarétti, fréttamiðlum og pólitíkusum) sem tóku skáldskap lögreglunnar sem heilagan sannleika. Þeir virðast gera það enn, því ekki hafa þessi mál verið rannsökuð af neinni alvöru síðan. Kjarkur til sjálfskoðunnar er enginn. Núll!

Hvað gerist næst?

Þá er komið að bókmenntafræðingum að skoða atburðarás og tilurð GG málanna, lesa skýrslurnar, og tilnefna sögusmiðina til Nóbelsverðlauna fyrir þetta stórkostlega afrek. Kannski ætti lögreglan sjálf að standa að tilnefningunni? Þetta eru jú þeirra menn sem hafa afrekað stórkostlegt skáldverk; samtímasögu með atburðarás og persónuflóru sem tekur sjálfum Íslendingasögunum fram. Meira að segja Laxness á ekki roð í rithópinn, hóp ritvélapikkara sem hefur haft meiri áhrif á Íslandssöguna en nokkurn óraði fyrir - og það með tveggja putta fingrasetningu! Meðan þetta bókmenntaverk er látið óátalið af lögreglunni, gætum við átt von á að nýjir höfundar endurtaki sama leik á okkar tímum?

Höfundur starfar við nýsköpun.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×