Umræðan

Rafmyntir sem fjárfestingakostur

Guðlaugur Steinarr Gíslason skrifar

Fyrir aldamótin átti sér stað ein mesta bylting seinni tíma þegar internetið leit dagsins ljós fyrir almenningi. Internetið gjörbreytti upplýsingamiðlun og samskiptum okkar til framtíðar. Í dag stöndum við frammi fyrir annarri byltingu með tilkomu bálkakeðjutækni. Á sama hátt og internetið breytti upplýsingamiðlun og samskiptum þá mun bálkakeðjutæknin gjörbylta skráningu og umsýslu verðmæta. 

Til einföldunar er hægt að líta á bálkakeðjur sem stafræna þinglýsingabók sem gengur þvert yfir landamæri. Þessi skrá er vistuð hjá notendum um allan heim og er öllum opin. Allar færslur eru afstemmdar sjálfkrafa sem kemur í veg fyrir að hægt sé að falsa færslur eða ráðstafa sömu verðmætum tvisvar sem er stærsta áskorun rafrænna gjaldmiðla. Bálkakeðjutæknin er grunnkerfið sem rafmyntir byggja á. Síðan eru til aðrar rafmyntir sem byggja ofan á grunnkerfinu og bjóða upp á svokallaða snjallsamninga. Möguleikar þessara snjallsamninga eru nánast endalausir í öllum viðskiptum sem einhverskonar skráning verðmæta kemur nálægt. Því trúi ég að bálkakeðjutækni og rafmyntir verði grunnstoð í umsýslu og skráningu allra verðmæta í framtíðinni.

Á sama hátt og internetið breytti upplýsingamiðlun og samskiptum þá mun bálkakeðjutæknin gjörbylta skráningu og umsýslu verðmæta.

Mikilvægt er að átta sig á því að hugtakið rafmyntir nær yfir stóran hóp rafmynta sem geta haft ólíka eiginleika. Flestir hafa heyrt um Bitcoin sem flokkast sem verðmætamynt (e. store of value). Ethereum kemur þar á eftir og er þekktust af svonefndum snjallsamningamyntum (e. smart contract coins) en margar af stærstu rafmyntum heims eru í þessum flokki. Dæmi um aðra flokka rafmynta er nytjarafmyntir (e. utility tokens), kauphallar-rafmyntir (e. exchange tokens), eignavarðar rafmyntir (e. asset backed tokens), NFT (e. non-fungable tokens) og stöðugleikamyntir (e. stable coins) sem eru rafmyntir sem eiga að fylgja virði þeirra gjaldmiðla (e. fiat currencies) sem við þekkjum í dag.

Hér sjáum við hversu gríðarlega stór og fjölbreyttur þessi heimur er. Virði þeirra getur því verið tilkomið af ýmsum þáttum en algengt er að það byggi meðal annars á sjaldgæfni þeirra og í sumum tilfellum sjóðsstreymi til eiganda rafmyntanna sem er forritað inn í eiginleika þeirra.

Heimild: Könnun eignastýringafélagsins Grayscale frá desember 2021fyrir almenning í Bandaríkjunum.

Benda má á ýmsar staðreyndir sem sýnir hve útbreiddur þessi eignaflokkur er orðin. Í árlegri könnun eignastýringafélagsins Grayscale frá desember 2021 voru lagðar spurningar fyrir almenning í Bandaríkjunum og þar kom fram að 26 prósent svarenda eiga Bitcoin í dag. Sé litið til fjölda notenda rafmynta er hann sambærilegur notendum internetsins árið 1999 og árlegur vöxtur í notendum rafmynta er um 113 prósent á ári samanborið við 63 prósent árlegan vöxt notenda á internetinu (Realvision, 2021).

Í október 2021 var gerð könnun á vegum Oxford Economics og eins stærsta eignastýringaaðila í heimi, State Street, sem hefur um 4.000 milljarða dollara í stýringu. Þátttakendur voru 300 forstjórar og fjárfestingastjórar. Um 82 prósent af þeim sögðust vera með heimildir til þess að fjárfesta í rafmyntum beint eða óbeint og 70 prósent svarenda ætluðu að auka vægi rafmynta í eignasafninu á árinu 2022 og 81 prósent á næstu 2 til 5 árum. Meirihluti svarenda, eða 56 prósent, átti von á því að rafmyntir yrðu algengur hluti í eignasöfnum fjárfesta á næstu 3 árum og ögn færri áttu von á því að fyrirtæki myndu fjárfesta í rafmyntum.

Heimild: Könnun Oxford Economics og State Street sem var gerð í október 2021. Þátttakendur voru 300 forstjórar og fjárfestingastjórar.

Um 4 prósent allra framtaksfjárfestinga (e. venture capital) voru í fyrirtækjum sem starfa við bálkakeðjutækni árið 2021, samanborið við aðeins 1 prósent árinu áður (Coinbase, 2021). Nam fjárhæð þessara fjárfestinga 26 milljörðum bandaríkjadollara.

Það er ljóst að heimur rafmynta er orðin gríðarlega umsvifamikill og engin leið að ná utan um hann í einni grein. Það er því mikilvægt að fjárfestar kynni sér þennan nýja fjárfestingarkost og möguleika hans í eignasöfnum framtíðarinnar því allt bendir til þess að rafmyntir séu komnar til að vera.

Höfundur er fjármálahagfræðingur og einn eigandi Viska Digital Assets ehf.

Heimildir:

https://www.statestreet.com/content/dam/statestreet/documents/Articles/Topline_Survey_Presentation.pdf

https://grayscale.com/wp-content/uploads/2021/12/Grayscale-2021-Bitcoin-Investor-Study-1.pdf

https://twitter.com/raoulgmi/status/1396837073202532357

https://news.crunchbase.com/news/under-the-hood-coinbase-ventures-investing-crypto-blockchain/


Tengdar fréttir




Umræðan

Sjá meira


×