Íslenska liðið er nú mætt úr sólinni í Kaliforníu, eftir sigra á Nýja-Sjálandi og Tékklandi, í kuldann í Texas þar sem leikið verður við Bandaríkin á Toyota Stadium fyrir framan á annan tug þúsunda áhorfenda. Þar freista stelpurnar okkar þess að vinna sinn fyrsta titil og jafntefli dugir liðinu til þess:
„Það á að vera einhver slydda og frost en ég held að það henti okkur mjög vel. Við þekkjum allar kuldann og vonda veðrið og þá kemur „íslenski víkingurinn“ enn meira inn í þetta. Ég held að þetta hafi alla vega engin áhrif á okkur og það er bara gaman að smá kulda og snjó,“ sagði Gunnhildur við Vísi á blaðamannafjarfundi í gær.
Gaman að taka þátt í þessu rétt fyrir EM
Fyrirliðinn er stoltur af frammistöðu Íslands á mótinu til þessa enda Ísland búið að spila vel og vinna báða leiki sína þrátt fyrir að tíu breytingar væru á byrjunarliðinu á milli leikja:
„Þetta er stórglæsilegt mót og risastórt hérna í Bandaríkjunum þannig að það er gaman að fá að taka þátt í þessu, rétt fyrir EM líka. Leikirnir hafa þróast vel og ég hef verið mjög ánægð með spilamennskuna og „fightið“ sem liðið hefur gefið í báðum leikjum. Það fá líka allir að spila og það er gott að fá góða samkeppni. Ég er mjög ánægð,“ sagði Gunnhildur sem spilar með liði Orlando Pride í Bandaríkjunum.
Gaman að vinna titil og gæfi liðinu „búst“
Hún tekur undir að sigur gegn heimsmeisturunum myndi gera mikið fyrir íslenska liðið á EM-ári:
„Við förum auðvitað í alla leiki til að vinna og það væri auðvitað gaman að vinna titil. Við viljum þróa okkar leik og vonandi kemur sigur með því, en bandaríska liðið er heimsmeistari og það myndi gefa okkur „búst“ að spila vel á móti þannig þjóð. Það er því mikilvægt að við komum inn í þennan leik fullar sjálfstrausts og ef við vinnum, sem við ætlum okkur, þá væri það geggjað.
Ég held að Bandaríkjamenn hafi búist við því að fá úrslitaleik við Ísland en mér finnst öll liðin á þessu móti hafa verið geggjuð. Tékkland og Nýja-Sjáland gáfu okkur góða leiki og undirbúning fyrir leikinn á morgun. Bandaríkin búast við að vinna, þær eru bara þannig, en við þurfum að láta þær hafa því sem þær ætla að gera og vonandi lendir þetta okkar megin,“ sagði Gunnhildur.