Skoðun

Hættum að rukka börn fyrir þjónustu sveitarfélaganna og byrjum að rukka ríkt fólk

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar

Útsvar er það sem við greiðum af launum okkar til sveitarfélagsins sem við búum í. Fjármagnseigendur greiða hinsvegar ekkert af fjámagnstekjum sínum til sveitarfélagsins. Útsvarið sem er veigamesti tekjustofn sveitarfélaganna er notað til uppbyggingar leik- og grunnskóla, fyrir menningarstofnanir, vetrarþjónustu, götulýsingu, sundlaugar og allt það sem sveitarfélögin sjá um.

Áhersla stjórnvalda á að veita ríku fólki skattaafslætti leiðir til þess að gjaldtaka á sér stað þar sem hún ætti alls ekki að vera. Það kostar fyrir börn að borða í skólanum, það kostar fyrir börn að fara í sund, það kostar fyrir börn að fara í strætó. Nýjasta útspilið birtist okkur í því að strætó árskort barna á aldrinum 12-17 ára var hækkað frá 25.000 krónum upp í 40.000 þúsund krónur.

Hættum að rukka börn fyrir þjónustu sveitarfélaganna og byrjum að rukka fjármagnseigendur. Það er ekki eðlilegt að fólk sem hafi tekjur sínar að mestu leyti af fjármagni greiði lítið, jafnvel ekkert til sveitarfélagsins sem það býr í. Börn hafa engar tekjur og eiga ekki að greiða gjöld. Börn eiga að geta mætt í skólann án þess að hafa áhyggjur af því hvort búið sé að greiða fyrir mataráskriftina. Þau eiga að geta sest niður við borðið ásamt skólafélögum sínum og notið þess að borða.

Við eigum ekki að vera með afsláttakerfi fyrir sum börn eða bjóða fátækum börnum upp á frían mat heldur á gjaldtaka ekki að fara fram innan veggja skólans. Við eigum ekki að senda ógreidda matarreikninga til innheimtufyrirtækja og leyfa þeim að hagnast á fátækt foreldra og forráðamanna. Við eigum ekki að búa til skólaumhverfi þar sem börn læra að sum megi borða og önnur ekki.

Finnland hefur náð góðum árangri með gjaldfrjálsar skólamáltíðir þar sem bent hefur verið á að þetta gagnist öllum börnum en sé nauðsynlegt fyrir sum. Hér er vert að nefna að við vitum aldrei nákvæmlega hverjar aðstæður barna eru og nauðsynlegt er að skólinn sé ekki enn einn staður samfélagsins sem leitist við að ala upp kostnaðarvitund í börnum.

Sameiginlegir sjóðir eiga að greiða fyrir þá þjónustu sem fer fram inni í skólanum og ásæða þess að þeir standa ekki nógu sterkt til að bjóða upp á gjaldfrjálsa þjónustu er vegna þess að hinir allra auðugustu eru undanþegnir því að greiða í sameiginlega sjóði. Lögum það.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands og borgarfulltrúi sósíalista.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×