Vladimir Putin forseti Rússlands greindi frá því í gærkvöldi að Rússar hefðu viðurkennt sjálfstæði alþýðulýðveldanna Luhansk og Donetsk í austurhluta Úkraínu og að rússneskar hersveitir yrðu sendar þangað til friðargæslu. Rússneska þingið Duman samþykkt síðan aðgerðir hans með öllum greiddum atkvæðum í dag og heimilaði honum að beita rússnesku hervaldi utan landamæranna.
Putin segir Úkraínu ekki eiga sér neina sögulega réttlætingu enda hafi hún verið sköpuð af Lenín á sínum tíma. Rússum stafi ógn af Úkraínu sem byggi yfir rússneskri tækni til smíði kjarnorkuvopna.
„Við getum ekki leitt þessa ógn hjá okkur. Sérstaklega í ljósi þess að vestrænir bandamenn gætu ýtt undir að slík vopn verði framleidd í Úkraínu til að skapa enn eina ógnina gegn landi okkar. Við sjáum hversu ákveðið her stjórnvalda í Kænugarði hefur verið fílefldur,“ sagði Putin m.a. í rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.
Samkæmt ákvörðun rússneska þingsins í dag munu Rússar sjá um öll fjármál og bankaviðskipti Donetsk og Luhansk þar sem rússneska rúblan verður gjaldmiðill.
Bandaríkjastjórn greinir frá refsiaðgerðum sínum nú í kvöld. Refsiaðgerðir Evrópusambandsins munu beinast að rússneskum bönkum og aðgangi Rússa að fjármálamörkuðum. Þá beinast þær gegn öllum þingmönnum og ráðamönnum í Rússlandi sem komu að ákvörðun rússneskra stjórnvalda.
Bretar loka á fimm banka og frysta eignir vina Putins
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur greint frá aðgerðum gegn fimm rússneskum bönkum og þremur milljarðamæringum sem tengjast Putin. Eignir þeirra verði frystar, þeim meinað að koma til Bretlands og Bretum bannað að eiga samskipti við þá.
„Þetta er aðeins fyrsta skrefið í þeim aðgerðum sem við erum reiðubúin að grípa til. Fleiri aðgerðir eru tilbúnar og verða kynntar samhliða aðgerðum Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins ef staðan stigmagnast enn frekar,“ sagði Johnson á breska þinginu í dag við góðar undirtektir þingheims.
Þá hafa Þjóðverjar ákveðið að ekkert verði að opnun annarar gasleiðslu Rússa til Þýskalands. En Þjóðverjar og fleiri evrópuþjóðir flytja nú þegar inn mikið magn af jarðgasi frá Rússlandi. Sá innflutningur hefur reyndar verið þyrnir í augum Bandaríkjamanna sem hafa lengi varað við því að Evrópumenn verði of háðir Rússum í orkumálum.
Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu hvatti landa sína og aðraí dag til að sýna stilling. Hann sagði þær refsiaðgerðir sem kynntar hafa verið þó nauðsynlegar. Rússa hefðu nú lögleitt hernaðaraðgerðir sínar í Úkraínu sem staðið hafi yfir allt frá 2014 með því að senda hersveitir í nafni friðargæslu í austurhluta landsins.
„Ríki sem hefur stutt stríð í átta ár getur ekki gætt friðar,“ segir Zelenskyy.
Enginn sér fyrir endann á þeim hildarleik sem Rússar hafa hafið með innrás sinni í Úkraínu sem hæglega getur endað með blóðugri styrjöld. Íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra vestrænna ríkja hafa mótmælt þessum aðgerðum og munu taka þátt í refsiaðgerðum ríkja Evrópusambandsins og NATO.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi stöðuna við sendiherra Íslands í Moskvu í dag. Hún segir Rússa brjóta alþjóðalög með því að fara yfir landamæri sjálfstæðs ríkis. Vonandi verði haldið áfram að leita friðsamlegra lausna.
„Það er auðvitað mikið áhyggjuefni fyrir okkur öll í Evrópu ef þarna fara að brjótast út átök. Með tilheyrandi afleiðingum fyrir óbreytta borgara. Maður getur ímyndað sér að það muni hafa mikil áhrif á flótta fólks frá þessum svæðum. Þannig að þetta er auðvitað risamál fyrir okkur öll,“ segir Katrín Jakobsdóttir.