Jörðin eiginlega eitt stórt eldgos
„Þegar ég fór að hugsa um gerð myndbandsins pældi ég mikið í því hvernig eldfjöll tengja okkur öll saman á einhvern hátt. Hvort sem það er á góðan eða slæman hátt.
Það voru margir voru fúlir út í Ísland í kringum gosið í Eyjafjallajökli en svo kom fullt af fólki til landsins til að sjá gosið í Geldingadölum. Þannig það var svona fyrsta pælingin,“
segir Haffi.
Myndbandið sem kemur út núna við ensku útgáfuna er mjög ólíkt íslenska myndbandinu. Haffi segir fyrra lagið hafa verið óð til Íslands og Íslendinga en Volcano fjalli meira um að heildina alla, að allir geti fundið eitthvað sameiginlegt, hlýju og skilning í garð náungans.
„Gía var ástarbréf til Íslands. Þetta er meira svona ákall til heimsins að það er alltaf eitthvað sem tengir okkur. Við búum í raun öll á einu stóru hringlaga eldgosi,“ segir hann.
Einfalt með dýpri pælingu
Partur lagsins verður þó áfram á íslensku í ensku útgáfunni.
„Mér finnst mikilvægt að koma líka með okkar menningu og tungumál inn í ensku útgáfuna; hver við erum. En síðan vil ég bara að flestir geti dillað sér við þetta.
Þetta er einfalt lag en það er algjörlega dýpri pæling að baki textans, kærleika, ást og umhyggja.“
Myndbandið gerði Haffi með Ólafi Torfasyni, líkt og myndbandið við Gíu. Haffi segir þá vinna vel saman.
„Hann er svo hæfileikaríkur og frábær. Myndbandið er æðislegt en ég vil líka bara að fólk viti hvað hann er stórkostlegur og þolinmóður,“ segir Haffi um Ólaf sem skýtur myndbandið og leikstýrir, ásamt því að vinna hugmyndina að baki því með Haffa.
„Um leið og maður sér að einhver er svona hæfileikaríkur og góður, þá langar mann bara að vinna meira og meira með þeim.“
Nánar tengingar við sundlaugina
Hann segir Volcano fjalla meira um gosið sjálft en Gía fjallaði frekar um innri pælingar.
„Það er alls konar fólk í þessu myndbandi, alls konar týpur. Myndbandið er tekið upp í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði, sem er æðislegt því ég upplifi þau öll þar sem fjölskyldu. Þetta var bara fjölskyldan mín, var þarna næstum því á hverjum degi á sínum tíma. Þau voru svo opin fyrir að fá okkur. Tveir ungir dansarar sýna stórkostlega takta í myndbandinu.
Svo spilar fastagestur laugarinnar til margra ára, Sigríður Jósefsdóttir, stórt hlutverk í myndbandinu. Hún var alveg frábær og fabjúlös og gjörsamlega gerði myndbandið. Tók það á næsta level, algjörlega extra,“
segir Haffi hlæjandi að lokum.